Varðskip Landhelgisgæslunnar með heimahöfn í Sauðárkrókshöfn
Landhelgisgæslan hefur verið að skoða aðstæður á Sauðárkrókshöfn til að geyma skipið í höfninni til lengri eða skemmri tíma, eins og fram kom í frétt í Feyki í síðustu viku. Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs Svf. Skagafjarðar segir í aðsendri grein, sem birt var á Feyki.is fyrr í dag, að góðar viðræður hafa átt sér stað við forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georg Lárusson, um það hvort eitt skipa gæslunnar geti átt heimahöfn í Sauðárkrókshöfn en slíku fylgja bæði störf og umsvif.
„Þessar þreifingar hafa þegar skilað því að varðskipið Ægir sigldi fyrir nokkru í höfnina til að máta sig við aðstæður hér. Tókst afar vel til og voru skipverjar mjög ánægðir með alla umgjörð og móttökur okkar Skagfirðinga. Það er trú mín að jákvæð niðurstaða fáist úr viðræðunum og þeim verði lokið innan skamms með þeim hætti að Skagfirðingar fái reglulega notið þess að sjá varðskip gæslunnar í heimahöfn á Sauðárkróki,“ segir Stefán Vagn í grein sinni.
Landhelgisgæsla Íslands hefur það hlutverk að skipuleggja og framkvæma löggæslu og eftirlit með landhelgi Íslands, efnahags- og fiskveiðilögsögu Íslands, mengunarvörnum og siglingum á íslensku hafsvæði í samræmi við lög þar um, ásamt því að sinna leit og björgun á hafinu umhverfis Ísland. Landhelgisgæslan hefur m.a. sinnt eftirliti á Norðurlandi og haft eitt varðskipa sinna í heimahöfn þar um hríð.