Varmahlíðarskóli tryggði sér sæti í úrslitum Skólahreysti

Sigurlið Varmahlíðarskóla. MYND AF SÍÐU VARMAHLÍÐARSKÓLA
Sigurlið Varmahlíðarskóla. MYND AF SÍÐU VARMAHLÍÐARSKÓLA

Fjórir skólar af Norðurlandi vestra tóku í gær þátt í sjöunda riðli Skólahreysti en keppnin fór fram í Höllinni á Akureyri. Það var lið Varmahlíðarskóla sem sigraði og tryggði sér þannig sæti í úrslitunum sem fram fara í Laugardalshöll síðar í maí. Þá varð Grunnskólinn austan Vatna í öðru sæti riðilsins.

Lið Varmahlíðarskóla skipa Vignir Freyr Þorbergsson og Bríet Bergdís Stefánsdóttir sem eru í hraðabrautinni. Sigurbjörg Inga Sigfúsdóttir og Eiríkur Jón Eiríksson eru í hreystiþrautunum og varamenn eru Marey Kristjánsdóttir og Halldór Stefánsson.

Keppt var í átta riðlum í Skólahreysti og fara efstu skólarnir í úrslit og þeim fylgja síðan þeir fjórir skólar sem bestum árangri náðu í öðru sæti riðlanna. Ef Feyki reiknast rétt til og skilur reglurnar rétt þá missti Grunnskólinn austan Vatna naumlega af sæti í lokaúrslitum með fimmta besta árangur liðanna í öðru sæti. Tilkynnt verður á Facebook-síðu Skólahreysti um hádegi í dag hvaða fjórir skólar bætast í hóp þeirra sem þegar hafa tryggt sér sæti í úrslitum.

Auk þessara tveggja skóla tóku Húnaskóli á Blönduósi og Árskóli á Sauðárkróki þátt í keppninni í gær. Varmahlíðarskóli fékk 50 stig, Grunnskólinn austan Vatna 46, Húnaskóli lenti í fimmta sæti riðilsins með 28 stig og Árskóli var í sjötta sæti með 25 stig en alls voru níu skólar í riðlinum. Alls tóku 80 skólar þátt í Skólahreysti að þessu sinni.

Áður hafði Grunnskóli Húnaþings vestra tryggt sig inn í úrslitin og það verða því tveir skólar af Norðurlandi vestra á meðal þeirra tólf skóla sem keppa til úrslita– sem verður að teljast mökkgeggjaður árangur miðað við höfðatölu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir