Vatnsrennibraut reist við sundlaugina á Hvammstanga
Framkvæmdum við vatnsrennibraut í Sundlauginni á Hvammstanga miðar vel. Að sögn Guðnýjar Hrund Karlsdóttur sveitarstjóra Húnaþings vestra er búið að reisa rennibrautina en eftir er að ganga frá tengingum vatns- og raflagna.
Framkvæmdir hófust um miðjan desembermánuð en þar sem tíðarfarið hefur verið óhagstætt er ekki gert ráð fyrir að jarðvegsfrágangi ljúki fyrr en með vorinu. Að sögn Guðnýjar verður brautin tekin í notkun um leið og jarðvegsframkvæmdum lýkur.
Auk þess að reisa vatnsrennibrautina þurfti að byggja tæknirými fyrir rennibrautina og breyta girðingu vegna þeirra framkvæmda.