Veðrið lék við skagfirska kylfinga
Burtfluttir skagfirskir kylfingar komu saman á árlegu golfmóti á Hamarsvelli í Borgarnesi á laugardaginn. Metþátttaka var í mótinu, tæplega 90 manns, þar af um þriðjungur sem kom frá GSS á Hlíðarenda suður yfir heiðar. Er þetta án efa orðið eitt stærsta og glæsilegasta átthagagolfmót sem haldið er hér á landi.
Veðrið lék við kylfingana og komu þeir sólbrenndir og sælir heim að móti loknu. Skagfirðingamótsmeistari 2010 er Stefán Örn Guðmundsson (Stefánssonar Guðmundssonar í Ríkinu), með flesta punkta, eða 40. Efst í flokki kvenna, var Dagmar Ingibjörg Birgisdóttir (Guðjónssonar læknis) með 38 punkta en hún náði þeim árangri einnig árið 2008. Langbestum árangri án forgjafar náði Halldór Halldórsson (Arnarsonar og Ólu Konráðs) en drengurinn fór Hamarsvöllinn á parinu, eða 71 höggi en þetta er annað árið í röð sem Halldór er með lægsta skorið. Stóri bróðir hans, Örn Sölvi, kom næstur á 79 höggum og Ólafur Árni Þorbergsson fór völlinn á 80 höggum.
Verðlaun á mótinu voru vegleg að vanda, þátt fyrir kreppuna, og voru þau veitt í punktakeppninni fyrir 9 efstu sætin í karla- og kvennaflokki. Á eftir Stefáni Erni í karlaflokki komu Hofsósingurinn Þorsteinn Þorsteinsson og Hafþór Þorbergsson (Haffi Begga) með 38 punkta, Skarphéðinn Freyr Ingason og Halldór téður Halldórsson með 37 punkta, Stefán Kemp Bjarkason með 36 punkta, Eyþór K. Einarsson (sonur Guðrúnar Eyþórs) með 35 punkta, Jón Hreinsson (Jónssonar og Camillu) með 33 punkta og Sævar Steingrímsson í 9. sæti með 32 punkta.
Næst á eftir Dagmar í kvennaflokknum komu Guðbjörg Hólm, Jóhanna Valdimarsdóttir, Kristín Inga Þrastardóttir (tengdadóttir Kára Valla), Birgitta Bjargmundsdóttir (kona Steina Hauks) og Elísabet Böðvarsdóttir (kona Steina Þórs), allar á 31 punkti, Ásgerður Þórey Gísladóttir (kona Eyþórs K. Einarssonar) og Hjördís Sigurjónsdóttir (kona Kidda Blöndal) með 30 punkta og í 9. sæti varð Inga Jóna Stefánsdóttir frá Molastöðum í Fljótum á 29 punktum.
Hátt í 30 hjón/pör tóku þátt í Skagfirðingamótinu að þessu sinni og voru sérstök verðlaun veitt fyrir punktahæsta parið. Þar urðu Eyþór og Ásgerður hlutskörpust með 65 punkta samanlegt. Nándarverðlaun voru veitt á stuttu brautunum. Ragnar Marteinsson (Friðrikssonar í Fiskiðjunni) gerði sér lítið fyrir og var næstur holu á tveimur brautum, þeirri 8. og 14., en önnur nándarverðlaun hlutu Ragnar Kárason (Valgarðssonar) á 10. braut, Elísabet Böðvarsdóttir á 16. braut og Birgitta Bjargmundsdóttir, sem var aðeins 80 cm frá flagginu á 2. braut. Lengsta upphafshögg karla á 18. braut átti Örn Sölvi og lengsta högg kvenna á sömu braut átti Sólborg Hermundardóttir.
Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hefur styrkt Skagfirðingamótið gegnum tíðina en styrktaraðilar að þessu sinni voru Flugfélag Íslands, Hótel Hamar, Icelandair, Nike-umboðið, Rio Tinto-Alcan, Nói-Síríus, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Íslenska auglýsingastofan, Íslenska umboðssalan, Flugger-litir, Sjöfn Sigfúsdóttir, Golfbúðin Hafnarfirði, Steypustöðin, Steinullarverksmiðjan, Kaupfélag Skagfirðinga, Morgunblaðið, Hótel Vík, Securitas, Smith & Norland, BYKO, Sauðárkróksbakarí, Fjarðarbakarí, Reynir bakari, Passion-bakarí, Arctic Trucks, Bakkus, Fiskkaup, Málarasmiðjan og Sveitarfélagið Skagafjörður. Vilja mótshaldarar koma á framfæri innilegu þakklæti til þessara aðila fyrir frábæran stuðning.
Nánari upplýsingar um úrslit á mótinu má nálgast á þessari vefslóð á golf.is:
Myndir og texti Björn Jóhann Björnsson