Veiddu hnúðlax í Djúpadalsá í Blönduhlíð

Hér heldur Helgi á urriðanum en Stefán Ármann handleikur hnúðlaxinn. Myndir aðsendar.
Hér heldur Helgi á urriðanum en Stefán Ármann handleikur hnúðlaxinn. Myndir aðsendar.

Þeir voru heldur betur undrandi bræðurnir frá Minni-Ökrum í Blönduhlíð, Stefán Ármann og Helgi Vagnssynir, er þeir litu fiskinn augum sem þeir veiddu upp úr Djúpadalsalsánni, skammt frá heimili þeirra um síðustu helgi. Var þar kominn, langt fram í Blönduhlíð, hinn undarlegi fiskur hnúðlax sem tilheyrir ættkvísl Kyrrahafslaxa.

Fallegir urriðar hafa veiðst í Dalsánni en hnúðlaxinn er alveg ný saga.Að sögn Vagns Stefánssonar, föður þeirra bræðra, lætur Dalsáin yfirleitt lítið yfir sér og ekki þekkt fyrir mikla veiði. Sagði hann aðallega um smáfisk að ræða í gegnum tíðina en síðustu ár hafi krakkarnir borið heim fína urriða og bleikjur og eftir þær miklu rigningar seinniparts sumar hafi mikil ganga verið í ánni.

“Veiðitíminn er september til október og við förum nokkrum sinnum á þessu tímabili og veiðum með gömlum og frumstæðum aðferðum þ.e. með höndum og heimagerðum háf,“ segir Helgi. „Það er mest urrriði sem veiðist í ánni og fáeinar bleikjur en við sáum strax að þetta var ekki eðlilegur fiskur og langaði okkur mikið til að ná honum. Við urðum forvitnir að vita hvernig fiskur þetta væri.

Nafnið hnúðlax er dregið af hnýði sem myndast á baki kynþroska hængs. Þegar við spurðum pabba þá hélt hann að það hefði flætt upp úr Grænuvötnunum í rigningunni um daginn og að þetta væri afkomandi af skrímslinu sem á að vera þar,“ segir Helgi kíminn en þá bræður langar til að stoppa fiskinn upp og eiga til minninga, því þetta er fyrsti laxinn sem þeir veiða. „Við systkinin byrjuðum að veiða í ánni fyrir mörgum árum og varð pabbi mjög hissa þegar við fórum að koma heim með þetta stóra fiska. Aflinn hefur verið flakaður og reyktur eða steiktur í smjöri.“

Hnúðlaxar (Oncorhynchus gorbuscha) hafa lengi veiðst í íslenskum ám, segir á Vísindavefnum. Þeirra varð fyrst vart í evrópskum ám upp úr miðri 20. öld. Þann 12. ágúst 1960 veiddist einn slíkur í Hítará á Mýrum og var það fyrsti hnúðlaxinn sem kom á land úr íslenskri á. Hnúðlaxana í Evrópu má rekja til tilrauna Rússa til að koma á legg hnúðlaxastofnum í rússneskum ám. Í framhaldi af því fór fljótlega að bera á hnúðlöxum í öðrum ám í Evrópu, þar á meðal í íslenskum ám.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir