Veiðimaður fram í fingurgóma

Kristján hefur staðið í stórræðum við hús sitt á Króknum og hefur Jói Þórðar verið honum innan handar í steinsmíðinni. Mynd: PF
Kristján hefur staðið í stórræðum við hús sitt á Króknum og hefur Jói Þórðar verið honum innan handar í steinsmíðinni. Mynd: PF

Kristján Már Kárason er brottfluttur Króksari sem er smám saman að snúa til baka en fyrir nokkrum árum keypti hann gamalt hús í Kristjánsklaufinni og hefur verið að gera það upp. Þar dvelur hann reglulega og nýtur sín vel enda húsið orðið hið glæsilegasta bæði innan dyra sem utan og garðurinn umhverfis líka. Þegar blaðamaður leit við hjá Kristjáni á dögunum var hann með Jóa Þórðar að helluleggja og laga steinhleðsluvegg sem markar lóðamörkin. En ástæða heimsóknarinnar var ekki að ræða endurgerð hússins heldur veiðiáhugann sem á hug hans allan en þeir eru ekki margir sem fara jafn víða til að veiða. Allur heimurinn er undir og veiðibráðin fjölbreytt líkt og sjá má í stofu húsráðanda.

 

Kristján gefur sér tíma til að líta upp úr steinhleðslunni og aftekur boð mitt um að koma seinna. Við setjumst því inn í stofu en þar bera uppstoppaðir dýrahausar, skinn, horn og bein, svo eitthvað sé talið upp, þess merki að í húsinu býr veiðimaður. Skinn af hæsta dýri heims og fellt var í Afríku, þekur mest allt stofugólfið og hausarnir sem hanga á veggjum eru framandi og veit ég varla hvort þau hafi íslensk heiti. Ég byrja á því að spyrja Kristján hvernig veiðimennskan hafi byrjað hjá honum.

„Þetta byrjaði kringum 1966 síðasta árið sem flekaveiðin var við Drangey. Þá kom Sigmundur Eiríksson frá Fagranesi og falaði mig sem léttadreng á Víking gamla hans Jóns bróður hans. Og það var farið á flekaveiðar,“ segir Kristján. Þetta var síðasta vorið sem flekaveiðar voru stundaðar því lög voru sett á Alþingi og þær bannaðar. „Þarna um vorið komu þeir Gunnar Þórðarson, sem bölvaði mikið, og Valur Ingólfsson, báðir í búning, og sóttu okkur út í Drangey. Þá vorum við komnir með u.þ.b. 14 þúsund fugla. Þetta var fyrsta veiðin;“ segir Kristján sem síðar veiddi eitthvað smotterí af rjúpu og gæs í gegnum árin eins og hann orðar það. En svo var það árið 2006 sem allt breyttist. Þá lét hann tæla sig til Póllands af vini sínum, Jóhanni Vilhjálmssyni sem að vildi endilega fá hann með sér. „Ég átti enga byssu svo hann lánaði mér eina. Það var eins og við manninn mælt að í fyrsta rekstri þá steindrep ég dýr á harðahlaupum á 100 metra færi og þá var eiginlega teningunum kastað. Þá gerðist eitthvað sem ekki er hægt að útskýra. Við höfum verið að ræða þetta okkar á milli en þetta er eitthvert frumelement í manninum sem poppar upp í sumum og öðrum ekki. Og síðan eru liðin ellefu ár og ég farið til Póllands sjö sinnum síðan, Afríku, Kanada, Grænlands og víðar og veitt mikið.“ Aðspurður um hve mörg dýr hann hafi fellt segir hann þau vera sennilega um 130 og þá erum við að tala um annað en fugla. Allt stór dýr, þar af tólf  antilóputegundir, vörtusvín, birni og hæsta dýrið í Afríku, gíraffann.

„Þetta er búið að vera ansi skemmtilegt, góður félagsskapur og það hefur myndast lítill hópur karla sem hefur farið mikið saman. Við höfum ekki viljað fara í þessar stóru ferðir þar sem að menn eru næstum því með byssuna í annarri hendinni og bjórinn í hinni,“ segir Kristján alvarlegur í bragði.

Þegar hann er beðinn um dæmi um eftirminnilega veiðiferð bendir hann á dökkan feld í einu horni stofunnar sem reynist svartbjarnarfeldur, fenginn á Nýfundnalandi. „Maður er settur á stand út í skóg og þar er beðið. Þetta er pallur upp í tré í fjögurra metra hæð og þar situr maður og bíður. Þannig fer þessi veiði fram. Sett er agn fyrir björninn, gjarnan sýróp og eitthvað sem lyktar vel í skóginum. Þarna beið ég í þrjá og hálfan dag. Mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fram að hádegi á fimmtudag. Bara rólegur og sérstaklega í restina.“ Kristján segir það hafa verið gaman að upplifa lífið í skóginum meðan hann beið. Þar hafi verið fuglar, íkornar og mýs og skynfærin hafi fengið fylli sína af hljóðum og lykt og alls kyns upplifun sem fólk má ekki vera að að upplifa í hraða nútímans. „Þegar maður situr í tólf tíma samfleytt og bíður kyrr eftir bangsa þá fer maður að taka eftir ýmsum hlutum og þetta er nánast eins og „meditation“ eða hugleiðsla. Og þá verða áhrifin mörgum sinnum meiri þegar bangsi kemur, og hann kom!“ segir Kristján með áherslu. „Fyrst kom húnninn og svo fullorðna dýrið og ég skaut  hvort tveggja. Þetta eru óhemju öflug og sterk dýr svo það er eins gott að hitta. Maður er bara einn að eiga við þessi dýr.“

 

Allt á spani í Póllandi

Kristján segir að veiðin sé ólík í Póllandi en þar er boðið upp á svokallaða rekstarveiði. „Þar er mönnum raðað upp og svo eru rekstarmenn og hundar sem að reka dýrin fram og aftur um skóginn. Þá er bara skotið á það sem kemur á mann eða hleypur framhjá og allt á harðahlaupum. Þá er mikið atriði að vera með góð vopn og kunna að fara með þau og vera búinn að æfa til að ná einhverjum árangri.“ Aðspurður um stærð byssunnar sem hann notar segir hann hafa verið með tiltölulega lítið kalíber eða 308 sem hefur dugað honum ansi vel í gegnum tíðina og ekki notað neitt annað. Það er sama byssa og hann fékk lánaða hjá Jóhanni vini sínum sem áður var minnst á og hann keypti af síðar.  

Undirritaður á erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig farið er að því að fá að fella villt dýr í framandi heimsálfu og spyr því veiðimanninn hversu mikið mál það sé að fara til Afríku og skjóta gíraffa.

„Ferlið er raunverulega þannig að það er eitthvert veiðifyrirtæki sem maður setur sig í samband við og pantar veiði með tilteknum dýrum. Maður getur gert það á staðnum líka og þeir senda manni innflutningsleyfin á byssurnar og veiðileyfi, tryggingaplögg og sérstök plögg fyrir tollayfirvöld sem við þurfum að vera búin að fylla út. Svo eru byssurnar stimplaðar inn í landið og svo er bara veitt eins og hver getur. Það er í sjálfu sér ekkert mál. Svo er það sem maður vill fá af dýrinu, uppstoppað, sútað eða hauskúpur eða hvað það er. Það er sett í uppstoppunarferli úti og með því fylgja útflutningspappírar og svo er þetta bara sent. Þetta er ekkert mál en allt háð leyfum og kvótum.“ Kristján segist alltaf ferðast með byssuna sína og það sé ekkert mál, hvert sem er. „Menn hafa farið með vopn frá Evrópu til Íran að veiða og ekkert mál.“

Þegar Kristján er spurður að því hvaða dýr sé erfiðast að veiða, dregur hann seiminn en segist nýkominn frá Suður Afríku þar sem hann veiddi einar sex tegundir dýra og þar á meðal stökkhjörtur eða springbok, en þeir eru til venjulegir, svartir og hvítir. „ Ég var að veiða svartan og við eltum hann í sex og hálfan klukkutíma og náðum honum fyrir rest. Þetta er lítil antilópa, minni en impala sem flestir þekkja. Það var svolítið snúið að ná þessu dýri,“ segir Kristján og gefur til kynna að það séu ekki stærstu dýrin sem erfiðast sé að veiða.

„Nei, þau eru frekar auðveld. Það eru minnstu dýrin sem erfiðast er að veiða, minnstu antilópurnar, en mörg þeirra eru næturdýr.“ Kristján segir að líka sé veitt á næturnar m.a. kattardýrin, t.d. pardusdýr og tígrisdýr.

Aðspurður um hvort hann hafi veitt svoleiðis segir hann ekki svo vera enda snúist þetta svolítið um peninga. „Það er mjög dýrt að veiða stóru kattardýrin. Það þarf bæði stórar byssur og kostar mikið. Það verður kannski seinna.

 

Veitt á Spáni

Það er víða sem veiðihefðir hafa skapast í gegnum aldirnar m.a. á Spáni. Þar segir Kristján þá félaga hafa veitt töluvert mikið, aðallega hjartardýr, svín, mufflon og fleiri dýr. Þar er rekstrarveiði og skemmtilegt að veiða, segir Kristján. „Þar koma menn saman og ráða ráðum sínum og rabba saman, kannski rauðvínsglas og svo er farið út að veiða. Þarna höfum við veitt mikið. Það er varla hægt að nefna tölur!“ segir Kristján og kímir. En þar þarf að grisja þá stofna sem eru orðnir of stórir. „Stofna þarf að grisja. T.d. í Suður Afríku er lítið af ljónum og hýenum sem ógna stofninum og þá grisja menn bara. Monteria heitir veiðin á Spáni og er afskaplega skemmtilegt. Spánverjarnir klæða sig upp í sitt fínasta púss og fara að veiða.“ Kristján segir þetta mjög vel skipulagt frá a- ö. Mönnum er raðað út á veiðisvæðin með vissu millibili og af öryggi svo engi hætta sé á að þeir skjóti hver annan fyrir slysni enda kannski eins gott.

Það er kannski ekki sanngjarnt að biðja mann, sem hefur þessa gríðarmiklu reynslu af veiðimennsku, um að gera upp á milli þeirrar upplifunar sem hann hefur orðið fyrir á þessum ferðum sínum. En hann bregst vel við og rifjar upp bjarndýraveiðarnar sem áður var komið inn á. „Það var ansi sterk upplifun að fara á bjarndýraveiðar. Þetta eru bæði stórhættuleg dýr og erfið að eiga við og eins gott að bera virðingu fyrir þeim. Og vera með réttu græjurnar! Svo er það nú líka sem er meira svona inná við hjá manni, þessi samkennd hjá veiðimönnum sem er svo sterk. Þetta eru góðir drengir, veiðimenn fram í fingurgóma, traustir félagar og það verður svona sterk upplifun milli manna. Venjulegt fólk skilur það ekkert og telur að við veiðimenn séum vont fólk. Það er náttúrulega ekki svo, við erum bara veiðimenn.

 

Í 35 stiga frosti á Grænland

Til Grænlands hefur Kristján farið til að veiða, bæði hreindýr og sauðnaut og einu sinni var gerð heiðarleg tilraun með hvítabjörn. „Það var ansi skemmtileg ferð í apríl 2012. Ég flaug til Skoresby og fór með tveimur hundaækjum yfir í suðurodda Skoresbysunds en þar er mikið umferðarsvæði bjarndýra. Við vorum búnir að vera þar í þrjá og hálfan dag þegar ég þurfti að fara í flug. En við sáum fimm dýr, tvö kvendýr með þrjá húna. En það má ekki skjóta þau.

Þetta var heilmikið fyrirtæki, vorum í 35 stiga frosti með 22 hunda og gistum í kofa. Það var dálítið kalt. Óskaplega fallegt og mikil upplifun. Sólargangur orðinn langur og kallarnir fínir. Sá sem var með mér heitir Hjálmar eða Hjelmer. Hann er mesti veiðimaður á austur Grænlandi en hann var þá búinn að veiða 62 bjarndýr.“

Kristján segir að frostið hafi verið svo mikið að hann þurftir að sofa með myndavélina í svefnpokanum hjá sér svo hún mynda virka í kuldanum. Nestið var sel- og bjarndýrskjöt að hætti innfæddra. Þarna náði Kristján að skjóta tvo seli en því miður engan hvítabjörn og segir hann það sennilega verða aldrei. „Það eru kvótar í bjarndýr í Kanada en þetta er orðið mjög dýrt og ekki fyrir hvern sem er. Á Grænlandi er þetta eiginlega búið að vera þannig að túristi verður að vera með grænlenskt veiðileyfi.“ En til Grænlands fer Kristján aftur því í farvatninu er veiðiferð þangað í haust. En ekki er það eina veiðiferðin sem er plönuð því farið verður til Spánar í monteria í október, Póllands í endaðan nóvember og aftur á Spán í febrúar. Ef þið haldið að það sé búið þá er það nú ekki því í apríl er áætluð veiðiferð til Suður Afríku. Þegar Kristján sér að augu blaðamanns eru við það að spýtast úr augntóftunum af undrun segir hann sposkur að hann vilji neyta meðan á nefinu stendur.  

Með öllum þessum veiðiskap hlýtur að fylgja mikið að afurðum, kjöti, skinnum og fleiru. Kristján segist reyna að taka yfirleitt eitthvað með sér heim. Um næstu áramót á hann von á þremur uppstoppuðum hausum frá Suður Afríku. „Af nyala, sem ég kann ekki að nefna á íslensku, bushbuck og springbok svarti sem ég kann heldur ekki nafnið á. Svo fæ ég eitthvað af skinnum og kúpum.“

 

Ekki bara að taka í gikkinn

Þegar Kristján reynir að útskýra fyrir blaðamanni hvað þetta gefur honum segir hann það dýrmætt fyrir alla að eiga eitthvert áhugamál sem hægt sé að gleyma sér í. Það sé hverjum manni hollt í lífinu að hafa gleði út út því. „Þetta er ekki bara veiði. Ég fer til margra landa og heimsálfa að veiða í mismunnandi menningu, mjög mismunandi, og kannski botna ekkert í. Náttúran í gróðurfari og dýralífi og mannlífi og öllu. Þetta er ekki bara að taka í gikkinn, þetta er miklu meira. Mikil ferðalög!

Maður hleður ómeðvitað niður upplifunum án þess að gera sér grein fyrir því. Kemur heim frá öðrum menningarsvæðum en maður kemur aldrei eins heim. Pínu þroskaðri eða breyttur og þá sér maður líka heima í kringum sig með öðrum augum. Ég er nú búinn að ferðast mikið og komið til 56 landa. Ég lærði fljótlega, ekki strax, og var lengi að að venja mig af því, að skilja eftir allar ómeðvitaðar viðmiðanir sjálfs míns. Skilja þær bara eftir, því þá upplifir maður miklu sterkara, hvort sem maður er staddur í Masai Mara sléttunni eða í Bangladesh í Dhaka downtown eða í Bútan eða hvar sem er í heiminum þar sem menningin er annað hvort á steinaldarstigi eða ofsalegri fátækt eða jafnvel í ríkidæmi eins og Barein. Þá upplifir maður þetta allt öðruvísi ef ekki er alltaf verið að bera saman hvernig þetta var í sveitinni í gamla daga. Bara skilja það eftir heima og meðtaka það sem er en ekki það sem maður vildi að það  væri. Að stíga yfir holdsveikt fólk á götu í Katmandú í Nepal, er dálítið skrítið eða vera á Indlandi þar sem fátæktin er ægileg. Það eru allskonar upplifanir sem maður á en verða ekki upplifanir nema maður sé móttækilegur fyrir þeim og sé ekkert með neina tilfinningasemi eða annað. Bara að upplifa. Það er eiginlega annar pakki þessi ferðalög,“ segir Kristján og það eru orð að sönnu. Ekki er hægt að fara í þau mál að sinni þar sem plássið leyfir það ekki en hver veit nema síðar verði.  

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá nokkrum veiðitúrum Kristjáns.

Áður birst í 27. tbl. Feykis

Fleiri fréttir