Vel mætt á íbúafundi um mögulega sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu

Mynd af Húnvetningur.is.
Mynd af Húnvetningur.is.

Góð þátttaka var á íbúafundum um mögulega sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Skagastrandar þann 3. og 6. mars sl. en þeir voru haldnir í gegn um fjarfundakerfi. Á fyrri fundinn skráðu sig um 100 þátttakendur, en á heimasíðu verkefnisins segir ljóst að við nokkrar tölvur hafi fleiri en einn tekið þátt. Auk þeirra fylgdust svo rúmlega hundrað manns með útsendingu á Facebooksíðunni „Húnvetningur“.

Á  hunvetningur.is kemur fram að eftir kynningar hafi fólki fyrri fundarins verið skipað í fjóra hópa, sem ræddu umræðuefnið út frá fjórum spurningum.

1. Hvernig líst þér á?
          Hvaða atriðum ertu sammála?
          Hvaða atriðum ertu ósammála?
2. Hvaða tækifæri liggja í sameiningu sveitarfélaganna?
3. Hvað ber að varast í sameiningarferlinu?
4. Hvað viljum við varðveita?

Miklar umræður spunnust í hópunum og komu fram mjög gagnlegar upplýsingar fyrir mótun sameiningartillögunnar. Segir á vef Húnvetnings að sitt sýndist hverjum um hvort kostir væru fleiri en gallar og komu fram þau sjónarmið að samstarf sveitarfélaganna geti verið betri lausn á áskorunum svæðisins, heldur en sameining.

„Íbúar í Austur- Húnavatnssýslu telja að ein helsta áskorunin við mögulega sameiningu sveitarfélaganna sé að byggja upp traust og auka trú íbúanna á að hag þeirra verði betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi. Að þjónusta nái til allra íbúa og að áhrif jaðarbyggða verði tryggð. Sameining sveitarfélaga geti ekki farið þannig fram að eitt sveitarfélag yfirtaki önnur,“ segir á Húnvetningur.is.

Fram kemur að íbúar leggi áherslu á að einkenni, menning og mannlíf hvers samfélags verði varðveitt. Þannig verði íbúar áfram Blönduósingar, Skagstrendingar og Vatnsdælingar svo dæmi sé tekið, þó þeir sameinist um að vera Húnvetningar.

„Mikil umræða var um fræðslumál og áhersla lögð á að skólarnir haldi sínum sérkennum og geti veitt þjónustu í samræmi við þarfir á hverjum stað. Ein viðamesta breytingatillagan sem kynnt var á fundinum er möguleg sameining Blönduskóla og Húnavallaskóla og var eðli málsins samkvæmt mikil umræða um þá tillögu. Mikil áhersla var lögð á að sameining skóla, væri raunverulega sameining skóla en ekki yfirtaka stærri skóla á þeim minni.“

Stöðnun er ekki valkostur
Fundarmenn telja að tækifæri liggi í auknum slagkrafti svæðisins til atvinnuþróunar og hagsmunagæslu gagnvart ríkinu og Alþingi, sérstaklega í samgöngumálum. Væntingar eru um að sameiningarframlög hjálpi svæðinu að verða fjárhagslega sterkara og til að efla stjórnsýslu og þjónustu. Þá töldu þátttakendur mikil tækifæri felast í aukinni áherslu á umhverfis- og skipulagsmál og uppbyggingu á Húnavöllum, eftir því sem kemur fram á hunvetningur.is.

Hvað stjórnsýslu varðar, atvinnulíf og þjónustu á svæðinu standa íbúar svæðisins frammi fyrir þeirri spurningu hvort betra sé fyrir samfélagið að takast á við þær breytingar sem í vændum eru í einu sveitarfélagi eða fjórum. Stöðnun sé ekki valkostur.

„Fundarfólk var sammála um að í sameiningu sveitarfélaganna fælust mörg tækifæri og þá helst í að blása til sóknar í atvinnu- og byggðamálum og bættum samgöngum innan svæðisins og hætta endalausum varnarleik. Mikilvægt er að varðveita núverandi þjónustu og bæta hana, halda sérstöðu hvers staðar eða byggðakjarna og halda áfram að halda staðbundna menningaratburði eins og þorrablót,“ segir á heimasíðu Húnvetnings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir