Vel mætt í fjöldahjálparstöð í Ásbyrgi - Myndir

Rauði krossinn stóð fyrir landsæfingu í neyðarvörnum, sunnudaginn 19. október, eins og greint var frá í Feyki í síðustu viku.. Æfingin vakti mikla athygli enda í fyrsta sinn í heiminum sem staðið hefur verið fyrir neyðarvarnaræfingu meðal heillar þjóðar. Klúbbur matreiðslumeistara vann með Rauða krossinum að þessum metnaðarfulla viðburði og eldaði kjötsúpu, þjóðarrétt okkar Íslendinga, úr sérvöldu íslensku hráefni.

Deild Húnaþings vestra tók þátt í æfingunni og opnaði fjöldahjálparstöð í Ásbyrgi á Laugarbakka. 65 manns mættu í Ásbyrgi og fengu sér kjötsúpu. Sjálfboðaliðar rauða krossins tóku vel á móti gestum og gangandi, að sögn Sæunnar Sigvaldadóttur sem sendi Feyki meðfylgjandi myndir.

Alls voru 48 fjöldahjálparstöðvar opnaðar um allt land og var þátttaka með ágætasta móti. Á síðustu vikum og mánuðum hefur náttúran minnt rækilega á sig og enn er ekki útséð með mögulegt gos í einni stærstu eldstöð landsins í Bárðarbungu. Kæmi til neyðarástands af þeim sökum er lykilatriði að Íslendingar, sem og gestir okkar hér á landi, hafi öruggt skjól hjá Rauða krossinum.

„Landsæfingin sýndi að sjálfboðaliðar okkar eru reiðubúnir að svara kallinu, við hvaða aðstæður sem kunna að koma upp á. Neyðartilvik geta verið smávægileg og stórvægileg, en þau eru ætíð alvarleg fyrir þá einstaklinga sem í þeim lenda. Rauði krossinn á Íslandi mun ætíð gera allt sem hann getur, til að aðstoða þá sem á hjálp þurfa að halda,“ sagði Sæunn.

Fleiri fréttir