Verðandi endurnýtingarmiðstöð á Hofsósi blæs til Hringrásarhátíðar 22. - 24. júní 2023

Miðstöðin var stofnuð árið 2020 og er markmiðið að vekja athygli á ofneyslu í þjóðfélaginu og möguleikum endurnýtingar til að minnka urðun og meðvitund um umhverfið. Í húsnæði Verðanda, Þangstöðum á Hofsósi er hægt að koma og gera við föt, gera upp húsgögn og nýta aðstöðu og verkfæri til handverks og hönnunar.

Hátíðin verður sett 22. júní kl. 18 með opnun sýningar á verkum eftir Helgu Friðbjörnsdóttur fyrrum textílkennara í Varmahlíðarskóla og Sigrúnu Bragadóttur hannyrðapönkara. Sýningin, sem verður í gamla frystihúsinu verður opin bæði föstudag og laugardag. Helga hefur endurnýtt textíl í langan tíma og sýnir einstaklega fallegt handverk. Sigrún hóf sinn feril sem Craftivisti/hannyrðapönkari árið 2017 og hefur tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar með verkum sínum. Einnig verður sýning á afrakstri endurnýtingar í miðstöðinni og þá verður hægt að sjá þrjú verk sem urðu efst í keppni á Prjónagleðinni á Blönduósi en þemað var einmitt endurnýting.

Á föstudegi verður opið i miðstöðinni og hægt að gera góð kaup í fatnaði og skoða aðstöðuna Einnig verður hægt að kaupa saumasett, hannað af Tinnu Laufdal en það samanstendur af efni, rennilás og sniði ásamt aðgangi að leiðbeiningum frá Tinnu um saumaskapinn.

Þá verður dagskrá fyrir börn á vegum Sigurlaugar Arnardóttur verkefnastjóra hjá Landvernd og síðar um daginn verður hún með fyrirlestur um hringrásarhagkerfið.

Sigrún hannyrðapönkari mun standa fyrir smiðju á laugardeginum þar sem hún kynnir skapandi endurnýting textíla með áherslu á gerð skrautveifa/-fána úr gömlum textíl.

Hátíðinni verður slitið laugardaginn 24. Júní kl. 16.

Dagskránna má nálgast á Facebook síðu miðstöðvarinnar sem heitir Verðandi endurnýtingarmiðstöð.

Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband í tölvupósti á verdandiendurnyting@gmail.com eða í síma 6162219 Solveig Pétursdóttir eða 6958533 Þuríður Helga Jónasdóttir.

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir