Verðlaunavagn Silla kokks staddur á Sauðárkróki - Allt íslenskt

Silli kokkur og Elsa. Mynd: SMH
Silli kokkur og Elsa. Mynd: SMH

Undanfarin tvö sumur hefur veitingavagn undir heitinu Silli kokkur verið staðsettur fyrir utan bílaverkstæði Gylfa Ingimarssonar á Sauðárkróki. Um verðlaunavagn er að ræða því Silli Kokkur hefur verið valinn Götubiti ársins tvö ár í röð, í fyrra og nú í ár. Á bakvið vagninn stendur Sigvaldi Jóhannesson (Silli kokkur sjálfur) og kona hans Elsa Blöndal Sigfúsdóttir en hún er einmitt hreinræktaður Skagfirðingur, dóttir Vigdísar Blöndal Gunnarsdóttur og Sigfúsar Sigfússonar.

Silli kokkur er í grunninn veisluþjónusta, en þegar ákveðin veira herjaði á landann fór Silli að útbúa grillpakka til að selja. Hann var með veislueldhúsið sitt opið um helgar sem hann seldi út úr en svo fór fólkið að flykkjast í sumarfrí og út á land. Þá var ekkert annað í stöðunni en að elta fólkið, koma sér upp matarvagni og bruna út á land.
„Ég sá að ég yrði að fara til fólksins, elta þau og þannig byrjaði þetta ævintýri, 17. júní í fyrra og strax í þá vann ég Götubiti ársins og aftur í ár,“ segir Silli.

„Ég er mikið að vinna með villibráð, ég er með gæsaborgara og það sem flestir vita ekki er að ég nota eingöngu gæsalæri í hamborgarann, þetta er svona 50% villibráð og 50% naut, nautafita og smá ostur.“

Silli kokkur býður einnig upp á hreindýraborgara og gæsapulsu í ár en matseðillinn er breytilegur. Í fyrra var hann til að mynda með sveppapulsu og hefur verið með hreindýrapulsu með Omnom-súkkulaði kakóbaunum.

„Pulsan breytist aðeins en hamborgararnir alltaf til staðar, en núna bjó ég sérstaklega til sér meðlæti fyrir hreindýraborgarann til að senda í keppnina, þannig að þetta eru villisveppir týndir á Snæfellsnesi og Egilsstöðum, og rabarbarinn úr garðinum og bláberin úr Aðaldalnum, allt Íslenskt.“

„Margir spyrja mig af hverju þetta sé svona gott og ég hef alltaf sagt; „ég náttúrulega er kokkur“ og það náttúrulega það sem að er mikið í þessu er að það eru ekkert allir fagmenntaðir sem eru að brasa í þessu vagna dóti.

Þau hjón, Silli og Elsa gera allt frá grunni og segja að minnsta vinnan sé að fara út með vagninn og selja. Seinustu tvær vikur hafa þau verið í veislueldhúsinu að undirbúa hráefni fyrir næstu þrjár helgar, hamborgara, sósur o.fl.

En hvað er það sem fær þau hjón til að koma á Sauðárkrók með vagninn?

„Það er náttúrulega bara bæði fjölskyldutengsl og vinatengsl og síðan góðar viðtökur. Einn besti vinur minn býr hérna og græjaði mig hérna hjá Gylfa og það er alltaf tekið vel á móti okkur hér.

Og Gylfi ánægður með þetta?

„Gylfi er hæstánægður með þetta. Aðsóknin hefur bara aukist í hvert skipti sem við komum, það tekur náttúrulega alltaf smá tíma að kynna sig og komast undir húðina hjá heimamönnum, en það virðist vera að virka, eykst og eykst í hvert skipti sem við komum, maður er alla veganna að gera eitthvað rétt,“ segir Silli kokkur að lokum.

Silli verður að selja veitingar sínar á planinu hjá Gylfa Ingimars til klukkan 19:30 í dag og hægt er að fylgja vagninum eftir á Fésbókarsíðu Silla kokks.

 "Varúð maturinn getur innihaldið högl!!!"

 

 

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir