Vg og óháð leggja áherslu á að loftlínur verði aðeins notaðar þar sem ekki er mögulegt að leggja jarðstrengi
Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar sem haldinn var í vikunni var lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Landsneti þar sem segir að Landsnet vinni að undirbúningi við mótun kerfisáætlunar sem er ætlað að gefa heildarsýn yfir þróun flutningskerfis raforku á næstu árum. Landsnet mun vinna umhverfismat fyrir kerfisáætlun um umhverfismat áætlana og er matslýsingin aðgengileg á heimasíðu Landsnets www.landsnet.is.
Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við matslýsinguna er til og með 30. maí 2017.
Bjarni Jónsson, fulltrúi Vinstri grænna og óháðra, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
Vegna áforma um Blöndulínu 3 vilja Vg og óháð leggja áherslu á að loftlínur verði aðeins notaðar þar sem ekki er mögulegt að leggja jarðstrengi og tekið verði mið af náttúruverndarsjónarmiðum og hagsmunum og vilja heimafólks við áætlanagerð og ákvarðanatöku.
Þá er áréttuð samhljóða ályktun Sveitarstjórnar Skagafjarðar frá árinu 2012: „Sveitarstjórn áréttar ennfremur að við undirbúning og vinnu að línulögninni sé tekið ríkt tillit til hagsmuna heimamanna og skoðað hvort og þá með hvaða hætti hægt er að koma til móts við kröfur um línulögn í jörð að hluta til.“
„Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að setja skilyrði fyrir lagningu Blöndulínu 3 hvað varðar leiðarval og framkvæmdakosti, þar með talið að raflína verði að hluta til lögð í jörð.“