Viggó kveður skíðasvæðið eftir 20 ára starf

Viggó Jónsson var sæmdur Gullmerki ÍSÍ á 99. ársþingi UMSS á síðasta vori fyrir en hann hefur unnið afar mikið og fórnfúst starf í tengslum við íþróttir í héraði til fjölda ára. Ingi Þór Ágústsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, afhenti Viggó viðurkenninguna. Mynd: UMSS.
Viggó Jónsson var sæmdur Gullmerki ÍSÍ á 99. ársþingi UMSS á síðasta vori fyrir en hann hefur unnið afar mikið og fórnfúst starf í tengslum við íþróttir í héraði til fjölda ára. Ingi Þór Ágústsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, afhenti Viggó viðurkenninguna. Mynd: UMSS.

„Þetta var eins góður dagur og mögulegt var. Það hjálpaðist allt að, gott veður, gott færi og frábær snjór um allan Stólinn og þó víðar væri leitað. Það gekk bara allt upp, í einu orði sagt dásamlegur dagur,“ sagði Viggó Jónsson, staðarhaldari skíðasvæðisins, í nýjasta Feyki er hann var inntur eftir því hvernig hefði gengið er nýja skíðalyftan var vígð á AVIS skíðasvæðinu í Tindastól sl. sunnudag. Nú er komið að tímamótum hjá Viggó þar sem hann hættir hjá skíðadeildinni nú um helgina og er því að klára sína síðustu viku í starfi framkvæmdastjóra deildarinnar.

Vígsla lyftunnar var upphaf afmælishátíðar svæðisins en þessa vikuna hefur því verið fagnað að 20 ár eru síðan svæðið var tekið í notkun. Bryddað hefur verið upp á ýmsu í tilefni tímamótanna og segir Viggó að nú sé verið að reyna að peppa fólk upp í gönguskíðunum og í tilefni af því hafi brottfluttur skíðagarpur verið fenginn til að kenna. „Við verðum með engan annan en Sævar Birgisson, Ólympíufara, til að kenna á gönguskíði á fimmtudag og föstudag og svo verður Tindastólsgangan haldin á sunnudaginn. Tindastólsgangan verður skemmtiganga í sjálfu sér, ekki keppt um sæti heldur á þetta að vera fyrir alla, nokkurs konar gönguskíðaveisla,“ segir Viggó.

Nú er komið að leiðarlokum hjá honum varðandi forstöðu skíðasvæðisins og hyggst hann stinga skóflunni í skaflinn, eins og hann segir sjálfur og líkir því við íþróttamennina sem setja skóna á hilluna. „Ég er búinn að vera viðloðandi skíðasvæðið síðan 1989 þannig að það er ágætt að rifa seglin og hleypa nýju fólki að. Það er nauðsynlegt. Það á allt sitt upphaf og sinn endi. Þetta er búið að vera dásamlegur tími og frábært að koma þessu í þann farveg sem það er í dag. Ég vona að fólk sé ánægt og njóti þess að nota þetta frábæra svæði,“ segir Viggó sáttur við guð og menn.

„Vissulega hefði maður viljað sjá meira eftir sig, að það væri búið að koma þessu á betri stall en það er alltaf þannig að maður hefði viljað sjá þetta og hitt búið, en svona er þetta bara.“

Hvað Viggó fari að gera segist hann líklega finna sér eitthvað til dundurs og hnykkir á að líklega muni hann einbeita sér betur að Drangeyjaferðum.

Búið er að ráða eftirmenn Viggós, Sigurð Hauksson, sem tekur við troðaranum, og Rakel Steinþórsdóttur, sem tekur við framkvæmdastjórastöðunni. Að auki hafa fjórir lyftuverðir verið ráðnir á skíðasvæðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir