Vildi að sigurkvöldið tæki aldrei enda

Skytturnar þrjár. Þessir heiðursmenn eru búnir að gera nokkrar körfurnar fyrir lið Tindastóls síðustu áratugina. Aðstoðarþjálfarinn Svavar Atli til vinstri, Helgi Rafn fyrir miðju en hann hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og lengst til hægri er aðstoðarþjálfarinn Helgi Margeirs. MYND AF FB SÍÐU VÖLU MARGEIRS
Skytturnar þrjár. Þessir heiðursmenn eru búnir að gera nokkrar körfurnar fyrir lið Tindastóls síðustu áratugina. Aðstoðarþjálfarinn Svavar Atli til vinstri, Helgi Rafn fyrir miðju en hann hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og lengst til hægri er aðstoðarþjálfarinn Helgi Margeirs. MYND AF FB SÍÐU VÖLU MARGEIRS

„Það var einstaklega ljúft, gæti alveg vanist því. Eftir góðan svefn var hugurinn samt strax kominn í loka augnablik leiksins og að endurupplifa það þegar leiktíminn rann út og stíflan brast með öllu tilfinningaflóðinu sem því fylgdi,“ sagði Helgi Margeirs, annar aðstoðarþjálfari Tindastóls, þegar Feykir innti hann eftir því hvernig hefði verið að vakna sem Íslandsmeistari sl. föstudagsmorgun.

Molduxann Helga Margeirs þekkja auðvitað allir sem eitthvað hafa fylgst með körfuboltanum á Króknum í gegnum árin, enda búinn að setja niður nokkra lygaþristana. Hann kom inn í Tindastólsteymið sem aðstoðarþjálfari snemma árs 2022. Þegar Helgi kom inn í þjálfarateymi Tindastóls þá var Baldur Þór Ragnarsson þjálfari og Svavar Atli Birgisson aðstoðarþjálfari og úr varð kröftugt þríeyki. Helgi og Svavar voru áfram aðstoðarþjálfarar nú í byrjun nýlokins tímabils en þá stjórnaði Vladimir Anzulovic skútunni okkar. Hann var látinn fara í janúar og Pavel tók við. Ef blaðamanni skjátlast ekki þá lýsti Baldur Þór því yfir í viðtali á þeim tímapunkti að hann spáði liði Tindastóls Íslandsmeistaratitlinum. Þá var nú ekki margt sem benti til þess enda liðið í sjötta sæti deildarinnar.

Hvað þýðir þessi titill fyrir þig og liðið, Helgi? „Þessi titill er risa stór. Hann er viðurkenning á allri vinnunni, þrautsegjunni, ósérhlífninni og baráttunni sem félagsmenn hafa lagt fram til Tindastóls síðustu 35 ár eða svo, ég er bara einn af þeim. Það eru svo margir og oft heilu fjölskyldurnar sem hafa gefið svo mikla vinnu og stuðning við liðið í mörg ár sem á þetta svo skilið.“

Þegar Helgi er spurður hvort hann geti lýst sigurkvöldinu segir hann það hafa verið frábært. „Ég vildi ekki að það tæki enda. Við vorum í langan tíma í salnum með stuðningsmönnum okkar, bæði þeim sem sáu leikinn þar og aðrir sem keyrðu uppí Origo bara til að taka þátt í fagnaðarlátunum eftir leik. Klefafagnið var svo tekið á nýtt level og ekkert til sparað þar. Liðið fór þaðan á Sumac en Þráinn Vigfússon bauð liðinu til veislu sem hæfði konungbornum áður en við héldum á Ölver og lokuðum kvöldinu með okkar fólki þar.“

Hvað er eftirminnilegast úr leiknum og hver var tilfinningin í leikslok? „Allur tíminn frá því við erum fimm stigum undir með rétt rúma mínútu eftir og sjá Key taka liðið á axlirnar og bera okkur yfir línuna. Ég fór í viðtal við Karfan.is innan við mínútu eftir leik og þar sést vel hve miklar tilfinningar eru að brjótast út þarna eftir leik. Ég snérist bara í hringi, faðmaði hundruðir og nánast trúði þessu ekki. Hugsaði til fallinna félaga sem hefðu viljað vera þarna með okkur og þakkaði þeim fyrir stuðninginn.

Varstu stressaður, höfðu menn tröllatrú á þessu verkefni? „Það er mikið stress í þessu en við vorum mjög einbeittir á það hvernig við ætluðum að nálgast leikinn. Það hjálpaði til við að halda einbeitingu þó hlutirnir væru ekki alltaf að ganga upp inná vellinum. Ég hefði ekki viljað neinn annan en Key á línunni þarna í lokin, hafði fulla trú á honum.“

Einhver skilaboð til Tindastólsmanna – leikmanna og stuðningsfólks? „Takk allir sem eruð buin að leggja svo mikið á ykkur að fylgja liðinu, skapa stemninguna sem við erum orðin landsþekkt fyrir á heima- og útivelli og fólk vill tengja sig við. Það er ykkur að þakka hvað Tindastóll er orðið risastórt! Makar og fjölskyldur leikmanna, þjálfara og stjórnarmanna fá svo sérstakar þakkir fyrir ótrúlega miklar fórnir og stuðning. Allir sem geta og vilja á einhvern hátt tengja sig við Tindastól eiga þennan titil og við þau vil ég segja – þið eruð Íslandsmeistarar!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir