Leggja til 264,3 milljóna framlags vegna Skagafjarðarhafna

Hofsóshöfn: Mynd: PF.
Hofsóshöfn: Mynd: PF.

Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Svf. Skagafjarðar var lögð fram ósk um umsögn um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019 til 2023. Tillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir ýmsum kostnaðarsömum framkvæmdum, m.a. stækkun Sauðárkrókshafnar vegna aukinna umsvifa. Þá harmar nefndin að ekki sé gert ráð fyrir beinum framlögum til uppbyggingar malarvega með bundnu slitlagi í sveitarfélaginu.

Eftirfarandi framlög til framkvæmda í Sveitarfélaginu Skagafirði voru kynntar:
Skagafjarðarhafnir með 264,3 milljóna framlag (75% af kostnaði). Þar af eru 95,6 milljónir fyrir Hofsóshöfn og 168,7 milljónir vegna Sauðárkrókshafnar. Gert ráð fyrir 9,6 milljóna framlagi vegna viðhaldsdýpkun í Sauðárkrókshöfn.
Gert er ráð fyrir 21,1 milljóna framlagi vegna sjóvarna á Hofsósi vegna landbrots vestan við Suðurbraut.
Í ljósi aukinna umsvifa í Sauðárkrókshöfn þarf að fara í hönnun á stækkun hafnarinnar og mun sveitarfélagið óska eftir framlögum úr ríkissjóði þar að lútandi.
Umhverfis- og samgöngunefnd ítrekar mikilvægi þess að Sauðárkróksflugvöllur tilheyri áfram grunnneti flugvalla en ekki er gert ráð fyrir framlögum til flugvallarins.
Nefndin harmar það að ekki sé gert ráð fyrir beinum framlögum til uppbyggingar malarvega með bundnu slitlagi í sveitarfélaginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir