Vilja að íbúar Norðurlands vestra búi við sambærilega þjónustu og íbúar annarra landshluta varðandi barneignarþjónustu

Á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar sl. miðvikudag, 12. janúar, var lagður fram tölvupóstur frá heilbrigðisráðuneyti þar sem kynnt er til samráðs skýrsla um barneignarþjónustu. Skýrslan var unnin af starfshópi sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að bættri barneignaþjónustu með áherslu á að auka samþættingu milli meðgönguverndar, fæðingarhjálpar og þjónustu við konur í sængurlegu.

Svohljóðandi bókun var gerð varðandi málið: 

„Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni skýrslu um barneignarþjónustu.
Eins og réttilega er bent á er engin stefna til um barneignarþjónustu hérlendis, hvorki varðandi fjölda og staðsetningu skilgreindra fæðingarstaða á landsvísu, né yfirlýst stefna um þá þjónustu og aðbúnað sem konum ætti að standa til boða.

Á Norðurlandi vestra er enginn skilgreindur fæðingarstaður og þurfa barnshafandi konur í þeim landshluta því að leita til Akureyrar, Akraness eða annað til að fæða börn sín. Ekki þarf að fjölyrða um oft á tíðum erfiðar aðstæður sem konur geta lent í af þeim sökum en barnshafandi konur í Skagafirði þurfa t.a.m. í öllum tilfellum að fara um erfiða fjallvegi til fæðingarstaða, þ.e. um Öxnadalsheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall eða Siglufjarðarveg. Síðast liðinn vetur lokuðust þessir vegir mjög reglulega, Öxnadalsheiði í 34 skipti, Vatnsskarð í 22 skipti, Þverárfjall í 43 skipti og Siglufjarðarvegur í 54 skipti.
Þá má minna á að aðgangur íbúa Norðurlands vestra að sjúkrahúsþjónustu sem er með sólarhringsaðgengi að skurðstofu er hvergi lakara en á Norðurlandi vestra. Nánast enginn íbúi á möguleika á að komast í slíka þjónustu á innan við klukkustund en í þeim landshluta sem næst lakast stendur á rúmlega helmingur íbúa þess kost að komast á þannig sjúkrahús innan klukkustundar. Úr þessu má bæta með tvennu móti, að byggja upp og manna sjúkrahús sem getur bætt aðgengi íbúanna að þessari þjónustu. Hins vegar má bæta samgöngur.
Ef miðað er við framangreinda skýrslu um barneignarþjónustu virðist ætlunin ekki vera sú að byggja upp fæðingarþjónustu á Norðurlandi vestra heldur mögulega koma upp starfsstöð héraðsljósmóður á Sauðárkróki sem „bæri ábyrgð á að veita grunnþjónustu í héraði, s.s. meðgönguvernd, sængurleguþjónustu og ungbarnavernd auk leghálsskimunar og ávísun hormónatengdra getnaðarvarna auk þess að hafa skilgreinda og launaða bakvaktaskyldu til að sinna bráðatilfellum í héraði. Héraðsljósmóðir bæri ábyrgð á að samþætta grunnþjónustu við sérhæfða þjónustu sem væri ýmist hægt að veita á staðnum, með fjarheilbrigðisþjónustu eða með flutningi skjólstæðings á hærra þjónustustig.“
Með öðrum orðum virðist ætlunin sú að áfram verði enginn skilgreindur fæðingarstaður á Norðurlandi vestra heldur verði komið á fót starfi héraðsljósmóður sem undirbyggi barnshafandi konur undir flutning á hærra þjónustustig.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer fram á að íbúar Norðurlands vestra búi við sambærilega þjónustu af hálfu ríkisins og íbúar annarra landshluta.“

Skýrsla starfshópsins er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Að samráði loknu mun ráðuneytið vinna aðgerðaáætlun á grundvelli skýrslunnar og umsögnum úr samráðsferlinu.

Hér má nálgast skýrslu starfshópsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir