Vilja að stjórnvöld sýni spilin

Þorleifur Ingvarsson, formaður sameiningarnefndar sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu, segir að stór skref í átt að sameiningu sveitarfélaganna fjögurra verði ekki stigin fyrr en stjórnvöld sýna spilin. Rætt var við Þorleif í hádegisfréttum RÚV í gær. Hlé var gert sameiningarviðræðum fyrir sveitarstjórnarkosningar sl. vor og hafa nýjar sveitarstjórnir allra sveitarfélaganna samþykkt að halda viðræðum áfram og skipað fulltrúa í nýja sameiningarnefnd.

Þorleifur segir að nú sé unnið að því að fá svör varðandi aðkomu jöfnunarsjóðs og opinberra aðila að verkefninu. Ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur boðað átak í fækkun sveitarfélaga og talað fyrir því að jöfnunarsjóður verði notaður til þess að hvetja til sameininga. Þorleifur segist hlynntur þessu útspili sem gæti haft úrslitaáhrif varðandi sameiningu. „Og við viljum sjá útlistun, eða hvernig það verður framkvæmt, áður en við tökum endanlega ákvörðun um kosningu,“ segir Þorleifur í samtali við RÚV. „Og síðan erum við í vinnu, eða að undirbúa það að reyna að fá svör varðandi aðkomu jöfnunarsjóðs og opinberra aðila að verkefninu. Og við ætlum okkur helst að vera búin að fá þau svör fyrir enda janúar.“

Þorleifur telur að næsti fundur sameiningarnefndar verði trúlega ekki haldinn fyrr en svör hafi borist frá stjórnvöldum. Þá fyrst verði hægt að huga að íbúakosningu sem gæti í fyrsta lagi orðið seint í vor eða seinni part næsta árs að mati Þorleifs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir