Vilja atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrpópusambandið
Framskóknarmenn í Norðvesturkjördæmi hafa sent frá sér ályktun þar sem fram kemur að mikilvægt sé að þjóðin fái að greiða atkvæði um það hvort aðildarviðræður verða hafnar við Evrópusambandið.
Samkvæmt lögum Framsóknarflokksins fer miðstjórn með umboð flokksins milli flokksþinga og útfærir meginstefnu hans í landsmálum. Á síðasta miðstjórnarfundi, í vor, braut Guðni Ágústsson, formaður flokksins, ísinn í Evrópumálum með því að leggja til svokallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Að þjóðin greiði atkvæði um það hvort aðildarviðræður verði teknar upp við ESB og síðar að þjóðin greiði atkvæði um niðurstöðu þeirra viðræðna, aðildarsamninginn sjálfan.
Undanfarnar vikur hafa framsóknarmenn þingað í öllum kjördæmum og í 4 skipti af 5 hafa þeir ályktað um Evrópumál. Ljóst er af skoðanakönnunum að margir framsóknarmenn vilja ganga lengra en stefna flokksins frá síðasta miðstjórnarfundi gerir ráð fyrir.
Í vikunni samþykkti kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi ályktun um að hefja viðræður við ESB um aðild og upptöku evru og í lok október var samþykkt í Norðausturkjördæmi að hefja undirbúning aðildarviðræðna að ESB. Einungis niðurstöðurnar skuli lagðar í dóm kjósenda. Þar er gengið lengra en stefna flokksins segir til um. Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðurkjördæmi, kjördæmi Guðna Ágústssonar, ályktaði að umræða um Evrópusambandsaðild væri mikilvæg og skoðanir með og á móti henni væru jafn réttháar.