Vilja ekki snjóskafl við Maddömukot
Snjómokstur stendur nú yfir á Sauðárkróki, líkt og víða annarsstaðar, eftir óveður síðustu daga. Maddömurnar í Maddömukoti höfðu samband við Feyki vegna þessa en á meðal þeirra ríkir mikil óánægja með hvernig staðið hefur verið að við moksturinn fyrir utan Maddömukot.
Snjóskafl fyrir utan Maddömukot frá öðru sjónarhorni. Ljósm. Sigríður R.
„Við Maddömur erum mjög óánægðar með að búið sé að moka öllum snjónum af planinu vestan við Minjahús upp að inngangi að Maddömukoti. Engin myndi sætta sig við að nágranni sinn kæmi og sturtaði því sem á hans plani væri á næsta plan eða inngang,“ segir Sigríður R. sem talar máli Maddamanna.
„Þess vegna biðjum við þann sem sá um mokstur á planinu að fjarlægja snjóinn hið fyrsta. Við Maddömur erum að vinna í húsinu kvöld og kvöld og væri ágætt að komast að þangað stórslysalaust,“ segir Sigríður með ósk um skjót viðbrögð.
