Vilja Húnavallaleið og Vindheimaleið á samgönguáætlun

Mynd: Samgöngufélagið
Mynd: Samgöngufélagið

Nú er hafin undirskriftasöfnun á netinu til stuðnings við að tvær hugmyndir Vegagerðarinnar frá árinu 2010 um styttingu hringvegarins á Norðurlandi vestra verði teknar upp í samgönguáætlun. Leiðirnar sem um ræðir eru annars vegar Húnavallaleið í Austur-Húnavatnssýslu og Vindheimaleið í Skagafirði. Fjallað er um málið á vef Ríkisútvarpsins.

Vindheimaleið gerir ráð fyrir að sé ekið til suðurs yrði sveigt af þjóðvegi eitt í Blönduhlið, ekið sunnan við Varmahlíð og upp á Vatnsskarð við Arnstapa. Við það styttist leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að 6 kílómetra.

Kæmi Húnavallaleið til framkvæmda lægi þjóðvegur eitt sunnan við Blönduós. Sveigt yrði í vestur úr Langadal, ekið á milli Laxárvatns og Svínavatns, framhjá Húnavöllum og komið á hringveginn við bæinn Öxl í mynni Vatnsdals. Það myndi stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að 14 kílómetra.

Á vef RÚV segir að Vegagerðin hafi lagt fram tillögur að báðum þessum leiðum fyriri rúmum áratug. Næðu þær fram að ganga myndi það stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um samtals 20 kílómetra. Tillögurnar eru hins vegar mjög umdeildar þar sem þær sveigja framhjá tveimur þéttbýlis- og þjónustusvæðum, Varmahlíð og Blönduósi. Var tillögunum mótmælt af sveitarstjórnum í Húnavatnssýslum og Skagafirði en sveitarstjórnir á svæði Eyþings studdu þær. Að lokum lagði Vegagerðin báðar tillögurnar til hliðar.

Samgöngufélagið hefur hefur sent Alþingi athugasemdir við tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2019 til 2033. Í þeim er óskað eftir því að í áætluninni verði gert ráð fyrir báðum leiðunum, Húnavallaleið og Vindheimaleið. Félagið telur að vel mætti leggja „báðar þessar leiðir í einkaframkvæmd og sem eitt verkefni og fjármagna þær með notkunargjöldum,“ eins og segir í athugasemdum Samgöngufélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir