Vilko og Náttúrusmiðjan kaupa Prótís af Kaupfélagi Skagfirðinga

Á myndinni eru Sigurjón Rúnar Rafnsson og Jóhannes Torfason. MYND: AÐSEND
Á myndinni eru Sigurjón Rúnar Rafnsson og Jóhannes Torfason. MYND: AÐSEND

Vilko ehf. á Blönduósi og Náttúrusmiðjan ehf. hafa keypt allt hlutafé í íslenska líftæknifyrirtækinu Prótis sem hefur verið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga frá upphafi. Í tengslum við viðskiptin verður Kaupfélag Skagfirðinga fimmtungshluthafi í Vilko ehf. Eitt af markmiðum þessara viðskipta er að auka samstarf milli aðila.

Protis ehf. sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski, eða svokölluðu IceProtein® og afurðum sem innihalda IceProtein®. Hlutverk fyrirtækisins er að skapa verðmæti með því að þróa og markaðssetja heilsuvörur úr íslensku hráefni, sem aflað og unnið er á sjálfbæran hátt, fyrir viðskiptavini sem leita eftir hágæða náttúrulegum fæðubótarefnum.

Framtíðarsýn nýrra eigenda felst í að breikka vörulínu Protís og viðhalda núverandi gæðastimpli sem og að auka vitund vörumerkisins.

Vilko var stofnað  árið 1969 og hefur staðið að framleiðslu á eigin vörumerki sem aðalega hafa verið bökunarvörur og súpur. Vilko á einnig vörumerkið Prima sem er þekkt fyrir stórt úrval krydda. Vilko hóf að framleiða náttúruleg bætiefni í hylkjum fyrir Náttúrusmiðjuna ehf. árið 2012, sem þróar og selur náttúrulegu bætiefnalínuna ICEHERBS.

Starfsemi Prótís fellur einkar vel undir framleiðslustarfsemi Vilko og þróunar- og sölustarfs Náttúrusmiðjunnar.

Margra ára rannsóknar- og þróunarvinna er að baki vöruúrvals Prótís. Mest seldu tegundirnar eru Protís liðir og Protis kollagen en í þeim er auk þorskpróteina meðal annars að finna kollagen úr skrápi sæbjúgna og íslensku fiskroði auk margvíslegra vítamína, steinefna og annarra innihaldsefna.

Vilko hefur hylkjað og pakkað vörum Protís síðustu árin rétt eins og fæðubótarefnum ICEHERBS og fleiri framleiðenda. Mikil aukning hefur verið í þeim hluta starfseminnar. Íslensk náttúra og hugvit koma því víða við sögu í þeirri stöðugt vaxandi framleiðslu sem fest hefur rætur á Blönduósi.

„Það er mikið fagnaðarefni að fá Protís inn í eignasafn fyrirtækisins og ekki síður að fá Kaupfélag Skagfirðinga inn í eignarhaldið. Með bæði nýju vörumerki sem og að fá Kaupfélag Skagfirðinga að rekstri Vilko fæst auðvitað mikil reynsla og þekking. Þetta er mikill kraftur fyrir starfsemina og aukinn byr í segl fyrir framtíðarsýn og þróun Prótís og um leið lyftistöng fyrir atvinnulífið hér á Norðurlandi vestra," segir Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko.
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir