Vinaliðaverkefnið fékk hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018

Hvatningarverðlaun veitt á degi gegn einelti 8. nóvember 2018
Hvatningarverðlaun veitt á degi gegn einelti 8. nóvember 2018

Í gær, á degi gegn einelti, veitti Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Vinaliðaverkefninu hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018. Guðjón Örn Jóhannsson verkefnastjóri verkefnisins og Selma Barðdal Reynisdóttir tóku við verðlaununum við athöfn sem haldin var í Öldutúnsskóla, Hafnarfirði.

Á vef Menntamálastofnunar kemur fram að Vinaliðaverkefnið sé forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum. Verkefnið miðar að því að auka jákvæð samskipti, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Markmið verkefnisins er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í löngu frímínútunum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Nemendur í 3.-7. bekk velja einstaklinga sem fá hlutverk Vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og taka til eftir leikina.

Verkefnið, sem er norskt að uppruna, hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í um 1200 skólum á Norðurlöndum. Árskóli á Sauðárkróki heldur um stjórn á verkefninu á Íslandi og í dag taka 46 skólar þátt í verkefninu hér á landi.

„Það er mikill heiður að fá þessi verðlaun og þau staðfesta að við erum að gera eitthvað rétt. Margir hafa óskað mér til hamingju og ég er mjög þakklátur fyrir það. En það sem allir þurfa að vita er að í verkefninu eru 46 skólar núna og í þeim vinnur frábært fólk sem lætur sér annt um nemendur sína. Þar vinna einstaklingar sem tóku að sér að halda utan um verkefnið í sínum skóla. Einstaklingar sem sinna verkefninu af ástríðu. Það eru þeir einstaklingar sem eiga þakkir skildar og því vil ég deila þakklætinu til þeirra,“ skrifar Guðjón Örn á Facebooksíðu sína.

Feykir óskar öllum sem að verkefninu hafa komið til hamingju með verðlaunin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir