Vinsæll ráðherra meðal hlustenda Sögu
Í netkönnun sem Útvarp saga stóð fyrir nýlega og yfir 500 manns tóku þátt í leiddi í ljós miklar vinsældir ráðherra úr NV-kjördæminu. Spurt var -Hvaða ráðherra treystir þú best? Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason trónir þar á toppi vinsældarlistans með 39.48% atkvæða.
Næstur Jóni kemur Ögmundur Jónasson með 14.97%, þá Guðbjartur Hannesson með 12.58% og Katrín Júlíusdóttir með 10.2%. Athygli vekur að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælist einungis með 7.38% og Kartrín Jakobsdóttir sem oft mælist hátt í vinsældarkosningum fékk 5.86% atkvæða. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG fékk 5.42% atkvæða, Svandís Svavarsdóttir 2.17% og neðstur á listanum er hinn dugmikli Evrópusinni Össur Skarphéðinsson en einungis 1.95% þeirra er tóku þátt treystu honum best.
Alls tóku 510 þátt í kosningunni 38.44% konur og 61.56% karlar, flestir á aldrinum 45-65 ára eða 48.22%.