VÍS styður Unglingalandsmót UMFÍ

VÍS verður bakhjarl Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki 31. júlí – 3. ágúst í sumar.  Mótið er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

„Forvarnarstarf VÍS og UMFÍ fellur ákaflega vel saman og því vel við hæfi að finna því þennan farveg. Við erum ánægð að taka með þessum hætti þátt í uppbyggilegri skemmtun ungmennanna og fjölskyldna þeirra,“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri hjá VÍS.

Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri mótsins segir unglingalandsmótin hafa heppnast gríðarlega vel undanfarin ár. „Þetta hafa verið með fjölmennustu skemmtunum verslunarmannahelgarinnar en þrátt fyrir mannfjöldann fer ávallt allt vel fram enda gestir til fyrirmyndar. Við hlökkum til að sjá eina rósina enn bætast í þetta hnappagat í sumar, meðal annars fyrir tilstilli VÍS.“

/fréttatilkynning

Fleiri fréttir