Vonar að tónlistin leiði hana áfram á vit ævintýranna

Blankiflúr. AÐSEND MYND
Blankiflúr. AÐSEND MYND

Næstkomandi laugardagskvöld, 23. október kl. 20:00, heldur Blankiflúr tónleika í Háa salnum í Gránu á Sauðárkróki. Á bak við Blankiflúr stendur Króksarinn Inga Birna Friðjónsdóttir, sem gerir raunar út frá höfuðborgarsvæðinu, en hún gaf út plötuna Hypnopompic í vor sem hlaut ágætar viðtökur. Nú, eftir alls kyns tafir vegna Covid-faraldurs, gefst loks kostur á að kynna plötuna með tónleikahaldi. Inga Birna segir að í raun verða tónleikarnir í Gránu fyrstu tónleikar Blankiflúr með fullskipaðri hljómsveit. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir tónlistarkonuna.

Hverju mega áheyrendur eiga von á í Háa salnum í Gránu? „Við erum fjögur saman í bandinu sem erum að koma og ætlum að flytja lögin í stórum útsetningum sem svipa til þeirra sem eru á plötunni. Það verður í fyrsta skiptið sem við leggjum í það en ég kom fram með sjö af lögum plötunnar í húsi Máls og menningar 12. október. Þá voru það ég og Stefán Örn Gunnlaugsson sem spiluðum niðurtónað sett ásamt vinkonu minni og tónlistarkonunni ZÖE. Við munum vera meira grand á því í Gránu á laugardaginn.“

Flytjið þið eingöngu lög af plötunni Hypnopompic? „Þetta eru útgáfutónleikar Hypnopompic svo platan verður flutt í heild sinni en við ætlum að bæta við 1-2 nýjum lögum sem eru væntanleg snemma á næsta ári býst ég við. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar svona fyrir fyrsta verk myndi ég segja. Hypnopompic var plata vikunnar í júlí á Rás2 og fékk flotta dóma þar sem og á nokkrum öðrum íslenskum og erlendum miðlum.“

Hvert vonarðu að tónlistarferillinn leiði þig og hvaða væntingar hefurðu? „Ég vona að hún leiði mig áfram á vit ævintýranna bara eins og hún hefur verið að gera. Í tónlistinni felst að sjálfsögðu mikil sjálfskoðun sem ég hef tekið mjög alvarlega síðustu tvö árin og er núna að læra á það að leyfa lífinu og listinni að flæða svolítið. Ég treysti því að ef ég geri hlutina af einlægni og leikgleði muni staðurinn sem mig dreymir um að enda á birtast einhverntímann í framtíðinni. Þá stoppar maður þar eins lengi og maður hefur gott af og svo heldur maður áfram inn á vit nýrra ævintýra, hver svo sem þau verða. Mér finnst t.d. bara ævintýri að setjast niður með blað og penna og sjá hvað kemur, þetta þarf ekki að vera flókið.“

Er von á nýju efni frá Blankiflúr fljótlega? „Já það er von á nýrri tónlist snemma á næsta ári. Ég er líka með myndband sem er að koma út sem ég tók upp í Skagafirðinum með Árna Rúnari Hrólfssyni í fyrra sumar og er mjög spennt að klára það, það hefur verið svona smá hobbí verkefni og ég veit ekki alltaf hvenær ég á bara að sleppa tökunum á því og leyfa því að flakka út í kosmósið. Vonandi bara á næstu vikum.“

Það verður án efa upplifun sem bragð er af að upplifa Blankiflúr í Gránu á laugardaginn. Hægt er að kaupa miða á Tix.is og þar fást einnig miðar á aðra tónleika Blankiflúr sem verða á Gauknum 28. október.

- - - - -

Ítarlegra viðtal við Blankiflúr er í pappírsútgáfu Feykis í dag. Einnig er hægt að gerast áskrifandi af rafrænni útgáfu Feykis og lesa blaðið á netinu.

 

 

Fleiri fréttir