Vonbrigði með niðurlagningu Blöndulínu
Sveitarstjórn Húnaþings vestra tók á fundi sínum í gær fyrir bókun sem gerð var í landbúnaðarráði Húnaþings vestra þann 7. þessa mánaðar um niðurlagningu Blöndulínu og gerir hana að sinni. Þar koma fram vonbrigði með sameiningu Skagahólfs og Húnahólfs en mun styttra er síðan riða kom upp síðast í Skagahólfi en í Húnahólfi og lengir það því þann tíma sem Húnahólf telst áhættuhólf um níu ár.
Bókunin er svohljóðandi:
„Sveitastjórn lýsir yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun ráðuneytisins um niðurlagningu Blöndulínu. Ekki hefur komið upp riða í Húnahólfi síðan árið 2007 en í Skagahólfi kom riða upp síðast árið 2016. Þarna munar nærri 10 árum og verður að teljast óeðlilegt að slíkt kallist sama sjúkdómastaða.
Í maí árið 2016 ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að skila tillögum til ráðuneytisins um endurskoðun auglýsingar um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma. Í tillögunum skyldi koma fram hvaða varnarlínum skyldi halda við og eftir atvikum hvaða varnarlínur starfshópurinn mælti með að lagðar yrðu niður, ásamt greinargerð þar að lútandi. Hópurinn skilaði af sér í mars 2017 og er skemmst frá því að segja að starfshópurinn lagði til að Blöndulína yrði áfram varnarlína.
Sveitastjórn telur undarleg vinnubrögð að gengið hafi verið gegn tillögum starfshóps sem var skipaður af ráðuneytinu sjálfu.“
Tengdar fréttir:
Blöndulína felld niður sem varnarlína
Öllu fé sem fór yfir Blöndu í sumar skal slátrað
Ekki þarf að slátra því fé sem fór yfir Blöndu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.