Fréttir

Uppbyggingarverkefni í ferðaþjónustu

Á heimasíðu Skagafjarðar er auglýst eftir uppbyggingarverkefnum í ferðaþjónustu til að setja á forgangslista Skagafjarðar fyrir áfangastaðaáætlun Norðurlands (DMP). Þau verkefni sem eru á forgangslista Skagafjarðar fá auka stig við mat á umsóknum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða en opnað verður fyrir umsóknir í haust.
Meira

Skólarnir byrja

Varmahlíðarskóli var settur í gær miðvikudaginn 24. ágúst stundvíslega klukkan 9. Það var mikil tilhlökkun í börnunum að byrja í skólanum eftir gott sumarfrí. Í Varmalíðarskóla þetta skólaárið eru 105 börn sem hefja skólagöngu í 1-10 bekk, þar af 8 sem eru að byrja í 1.bekk. Þau koma úr flestum hinna fornu hreppa Skagafjarðar og aka sum hver ansi langa leið til að komast í skólann.
Meira

Tímafrestur ráðherra löngu liðinn

Ennþá hefur ekki verið gengið frá samningum við sauðfjárbændur í Húnaþingi vestra sem skera þurftu niður fjárstofn sinn vegna riðu fyrr á þessu ári. Tímafrestur ráðherra vegna þessa er löngu liðinn og með öllu ólíðandi vinnubrögð að ekki skuli frá þessu gengið að mati strjórnar SSNV. Skorar stjórnin jafnframt á Matvælaráðherra að ganga frá samningum strax við alla þá bændur sem málið varðar.
Meira

Byggðaráð Skagafjarðar skorar á matvælaráðherra

Byggaðaráð Skagafjarðar samþykkti á fundi sem fram fór 23. ágúst síðastliðinn eftirfarandi áskorun til matvælaráðherra. Í ályktuninni segir m.a. að það megi ljóst vera að þessar hækkanir á gjaldskrá Matvælastofnunar komi þeim mjög illa sem hafa verið að byggja upp eigið vöruframboð undir merkjum smáframleiðanda eða beint frá býli og sjá sumir hverjir ekki annað í stöðunni en að hætta framleiðslu og markaðssetningu undir merkjum beint frá býli.
Meira

Umdæmisþing Rótarý fór fram á Sauðárkróki um helgina

Umdæmisþing Rótarý á Íslandi var haldið á Sauðárkróki um síðustu helgi. Þingið var sett á föstudag og því lauk á laugardagskvöldi. Tvö skagfirsk verkefni fengu hvort um sig 600.000 króna styrki frá hreyfingunni. Það voru um 200 Rótarýfélagar frá rúmlega 30 klúbbum, víðsvegar af landinu, sem sóttu þingið ásamt erlendum gestum.
Meira

„Ekki hætta að reyna að toppa sjálfa ykkur“

Feykir sagði frá því í sumarbyrjun að margfaldi meistarinn okkar stóri, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, hafi ákveðið að rifta samningi sínum við Íslandsmeistara Tindastóls í körfunni og leita á önnur mið. Ýmsir voru undrandi en sennilega má rekja ákvörðun kappans til þess að minna hafi verið að gera í vinnunni en hann bjóst við – mínútunum á parketinu hefur jú farið fækkandi. Nú í vikunni varð síðan ljóst að Sigurður Gunnar hefur ákveðið að snúa heim til Ísafjarðar og spila með liði Vestra í 2. deildinni.
Meira

Norðvesturúrvalið í góðum málum í 2. flokki kvenna

Það var spilaður fótbolti á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi þegar Norðvesturúrvalið (Tindastóll Sauðárkróki, Kormákur Hvammstanga, Hvöt Blönduósi og Fram Skagaströnd) tók á móti liði Aftureldingar, toppliði B-riðils í 2. flokki kvenna. Lið NV stendur vel að vígi í riðlinum því það hefur tapað fæstum stigum liðanna en á eftir að spila nokkra frestaða leiki. Stelpurnar okkar höfðu talsverða yfirburði í leiknum sem þó var spennandi því þrátt fyrir mýmörg tækifæri gekk brösuglega að koma boltanum framhjá sprækum markverði gestanna. Lokatölur engu að síður 4-2 sigur.
Meira

Uppskeruhátíð í Húnabyggð

Helgina 25.-27. ágúst verður Uppskeruhátíð í tengslum við Vatnsdælu- og Þrístapa verkefni sem unnið hefur verið um nokkurt skeið. „Þetta er komið til þannig að við höfum verið að vinna að því að bæta aðgengi ferðamanna að áhugaverðum stöðum og náttúrunni á slóð Vatnsdælu og við Þrístapa þar sem sögunni um Agnesi og Friðrik eru gerð góð skil,“ segir Elfa Þöll Guðjónsdóttir sem heldur utan um hátíðina.
Meira

Um 500 manns mættu á Stórhól í afmæli Beint frá býli

Nú á sunnudaginn var haldin 15 ára afmælishátíð Beint frá býli á sex stöðum á landinu. Hér á Norðurlandi vestra var hátíðin haldin á Stórhóli í gamla góða Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Ellefu framleiðendur mættu þar til leiks frá Norðurlandi vestra sem eru aðilar að Beint frá býli til að kynna og selja afurðir sínar. Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps var með bakkelsi á svæðinu og ferðaþjónustan á Lýtingsstöðum teymdi undir börnum.
Meira

Sumarkjóla- og búbbluhlaup á Króknum

Á morgun, fimmtudaginn 24. ágúst, verður haldið í fyrsta skipti á Sauðárkróki Sumarkjóla- og búbbluhlaup. Það er hlaupahópurinn 550 rammvilltar sem halda utan um viðburðinn í samstarfi við veitingastaðinn Sauðá og Radacini vín. „Okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt og nú síðustu ár hefur verið haldið Proseccohlaup í Elliðarárdalnum sem hefur tekist mjög vel. Þetta er virkilega skemmtileg hugmynd sem hefur það eina markmið að hafa gaman,“ segir Vala Hrönn Margeirsdóttir sem er ein af þessum rammvilltu.
Meira