Hinir brottflognu - Akureyringum finnst þetta ekkert fyndið

Hver er maðurinn?

  Guðjón Ingvi Geirmundsson. ( Ingvi Geirmunds, Guðjóns  nafnið  var áður fyrr eingöngu notað á tyllidögum en festist  við mig eftir að  ég flutti af Króknum).

Hverra manna ertu?  Sonur Guðríðar Guðjónsdóttur og Geirmundar Jónssonar  á Hólmagrund 24.

Árgangur ?  Hinn frábæri 1959, samkvænt kirkjubókum Hofsósprestakalls .

Hvar elur þú manninn í dag?  Ég bý á Akureyri, hef búið þar síðustu 10 ár.

Fjölskylduhagir?  Er giftur Höllu Kristínu Tulinius.

Afkomendur?  Tvíburasysturnar Anna Nidia og Agnes Yolanda 17 ára, sonurinn Otto Fernando  15 ára og dóttirin  Helga Sóley 6 ára. Þau þrjú elstu ættleiddum við frá Kólumbíu en  sú yngsta er heimatilbúin.

Helstu áhugamál?  Eins og er  tengjast þau helst áhugamálum barnanna. Hef einnig áhuga á að koma mér í form og spila með Tindastóli  á Pollamóti Þórs. Þá verður Árni Stefáns að vera rólegur því í eina skiptið sem ég var með rotaði hann mig í öðrum leik okkar í mótinu.  Vanmat gífurlegan stökkkraft minn og kýldi mig í hnakkan þegar ég ætlaði að skalla fyrirgjöf frá okkar marki.

Við hvað starfar þú ? Heimilislæknir á Heilsugæslustöðinni á Akureyri (HAK) .  

Hraðaspurningar ?

Heima er......................... Þar sem maður býr hverju sinni, hvar sem er í heiminum.  Þar er best.

Það er gaman................. Í góðra vina hópi. Það var t.d. mjög gaman að hitta gömlu skólafélagana á Króknum  í vor en því miður hafði ég ekki haft tök á því að mæta á þær samkomur lengi.

Ég man þá daga er.............. Ég man áhyggjulaus unglingsárin á Króknum þegar lífið á sumrin snérist um vinnu á dagin, fótboltaæfingar á kvöldin  sínalkó og prins polo á Ábæ eftir æfingu. Leikir um helgar. Ef til vill ball í Miðgarði á laugardagskvöldi.  Man líka ( ekki eins vel og Sigga Simma reyndar)hve gaman var á veturna þegar við  skólasystkinin í klíkunni englabörnin komum saman.

Ein gömul og góð sömm  saga......  

Ég flutti á Krókinn  frá Hofsósi 7 ára  gamall og við bjuggum fyrst í stað á efri hæð Suðurgötu 3 þar sem Framsóknarhúsið er í dag.  Samvinnubankinn þar sem pabbi vann var á neðri hæðinni. Besti  vinur minn fyrstu árin á Króknum var Gummi Sveins. Við brölluðum margt saman.  Flest tengdist það hestamennsku enda var hún hans ær og kýr ef hægt er að taka svo til orða um hesta. Við áttum mikla gæðinga, kúststöft sem mæður okkar saumuðu á dýrindis hesthöfuð. Einnig áttum við mikið stóð, samanasafn prika,  höfuðlausra reyndar. Hvert vor rákum við þetta stóð  upp í Krikjuklauf í haga í smá laut gengt kartöflugeymslunni  sem enn stendur en lautin er horfin, búið að slétta úr henni.  Á haustin sóttum við stóðið og rákum heim.  Mæður okkar útbjuggu nesti sem við borðuðum í lautinni enda löng leið fyir stutta fætur að fara og mörg prikin eða hestarnir erfiðir viðureignar.

Aðalleikvangur okkar strákanna á Suðurgötunni  í  þá daga var eins konar port ofan við hús Gumma og Ómars Braga.  Þar voru haldin margskonar íþróttamót og líka hestamannamót.  Þarna komu saman auk okkar  Gumma, Nonni Lissýar     ( Jón Viðar Mattíasson sem talað er við í hvert sinn sem brennur í Reykjavík), Ninni á Pósthúsinu, Öddi Ragnars og Kalli Ólafs, sem komu langt að úr suðurbænum og fleiri. Leikjunum stjórnuðu  Ómar Bragi og Jón bróðir. Höfðu þeir smíðað þar kofa með einskonar svölum ofan á þaðan sem þeir stjórnuðu leikjum  okkar yngri strákanna.  Aðalliður hestamannamótanna voru kappreiðarnar. Þá hlupum við með gæðingana milli fótanna eins hratt og fætur toguðu. Gummi var yngstur af okkur og minnstur. Hann tapað því iðulega. 

Gummi var þá þegar mjög tapsár eins og flestir Díllarar. Því greip Ómar frændi hans eitt sinn til þess ráðs að ljúka mótinu með góðhestakeppni sem Gummi fékk að vinna enda sá eini okkar sem kunni allar fimm gangtegundir íslanska hestsins. Ómar eða Jón bróðir lýstu keppninni. Síðastur út var Gummi. Þulurinn lýsti. „ Þarna kemur Guðmundur á Sörla á þessu fína skeiði“ .......... Þá stoppaði sá stutti og í honum gall. „ Sérðu ekki maður að þetta er brokk.“  Snemma beygist krókurinn og Gummi byrjaður að deila við dómarann 7 eða 8 ára gamall.  Hann  vann að sjálfsögðu góðhestakeppnina og allir fóru glaðir heim.

Ef spurt væri í þessum dálki okkar brottflognu um hnittnustu tilsvörin myndi ég nefna tvö eftirminnileg.  Konráð Gíslason kenndi okkur sögu í Gagganum. Hann átti það til að spyrja út í bekk ef honum sýndist menn ekki vera að fylgjast með kennslunni. Eitt sinn spurði hann Ödda Ragnars  eldsnöggt, „Oooog segðu mér Örn.  „Hver urðu endalok Lúters?“  Ekki stóð á svarinu. „Hann dó.“   Annað  tilsvar. Þegar við vorum í íþróttaferðum vorum við oft spurðir. Hvaðan eruð þið strákar?  Biggir Rafns svaraði þá alltaf. Frá höfuðstað Norðurland. -Nú eruð þið frá Akureyri ? Nei frá Sauðárkróki svaraði Biggi.  Akureyringum finnst þetta ekkert fyndið.

Spurt frá síðasta viðmælenda..... Ingvi minn, hvaðan er ananasinn eiginlega uppruninn og hvert er/var hlutverk hans?

Þessu er auðvelt að svara, Sigga mín. Ananasinn er uppruninn frá Suður Ameríku eins og svo margt frábært, t.d. þrjú elstu börnin okkar. Ég býst við að hann hafi lengst af verið hafður til matar enda mjög bragðgóður bæði ferskur og niðursoðinn. 

Þegar ég sá þessa spurningu grunaði mig að eitthvað, sem ég væri löngu búinn að gleyma,  byggi á bak við  þessa spurningu hjá Sigríði Guðrúnu.  Reyndist sá grunur réttur.  Sigga tjáði mér að ég hafi haldið ræðu um ananas í partíi hjá Björgu Jóns (Karlssonar) daginn áður en við lögðum upp í Landsprófsferðina okkar  3. júní  1975 !  Mig grunar þó að Siggu misminni aldrei þessu vant. Ég held ég hafi sagt frá melónu  í þessu partíi og jafnvel farið með stóra melónuhrópið sem var í miklu uppáhaldi hjá mér á þessum tíma.

Tel annars að rækta mætti bæði ananas og melónur í veðurblíðunni í Skagafirði. Kannski kemur Dreifarinn með fréttir af því seinna.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi ?

Nafn ? Jóhannes Hilmisson.

Spurningin er........ Jói, kemur þú ennþá öðrum eða báðum fótum bak við haus og hafir þú reynt það nýlega náðir þú þeim til baka ?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir