Var undirofursti í þýska hernum – Hinir brottflognu

Hver er maðurinn? Magnús Hartmann Gíslason 

Hverra manna ertu? Sonur Kristínar H. Sigurmonsdóttur og Gísla Magnússonar á Vöglum í Skagafirði.   Móðurforeldrar: Sigurmon Hartmannsson og Haflína Björnsdóttir í Kolkuósi.   Föðurforeldrar: Magnús Kr. Gíslason og Ingibjörg Stefánsdóttir á Vöglum. Magnús afi var hagyrðingur, orti m.a. „Undir bláhimni“ og gaf út tvær ljóðabækur.

Árgangur? 1959

Hvar elur þú manninn í dag? Í Laugarnesinu í Reykjavík.

Fjölskylduhagir? Í sambúð með Salvöru K. Gissurardóttur lektor við HÍ.   Hún er af Guðlaugsstaðaætt í Húnavatnssýslu.

Afkomendur? Kristín Helga, verkfræðinemi við Háskóla Íslands.

Helstu áhugamál? Skógrækt og húsbyggingar.

Við hvað starfar þú? Verkfræðistörf hjá RARIK og stundakennsla við Háskóla Íslands.   Hef starfað töluvert í Afganistan.   Fyrst sem undirofursti í þýska hernum, Kabúl 2002. Síðan við flugumsjón á alþjóðaflugvellinum í Kabúl 2003.   Hvorttveggja á vegum Íslensku Friðargæslunnar.  Loks sem sendifulltrúi á vegum Rauða kross Íslands á sjúkrahúsi í Kandahar 2009.   6 mánaða úthald í hvert skipti.

 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er.....................best

Það er gaman......................... saman

Ég man þá daga........................ er hátíð var í bæ

 

Ein gömul og góð sönn saga..................

Síðustu vikurnar fyrir jólafrí í gagnfræðaskólanum fór hópur nemenda að safna efni í áramótabrennu.   Munu ófá kvöld og helgar hafa farið í það verkefni.   Notuð var kerra, býsna þung, gott ef ekki á járnhjólum.   Nokkrir strákar toguðu, aðrir ýttu.   Á þessum tíma var alvöru snjór á Íslandi og því átak að koma kerrunni áfram.  Safnað var öllu brennanlegu, en í þá daga mátti nota t.d.  dekk og plast, sem ekki er vel séð í dag.   Ég var sjálfur aldrei viðstaddur brennuna, enda frammi í sveit í fríum þessa þrjá vetur sem ég bjó hjá Rúnu og Evert á Bárustígnum.   Rólegra var framfrá yfir hátíðarnar, í gamla daga var róstusamt á Króknum þegar leið að áramótum.

 

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Þegar ég var í gagnfræðaskólanum á Króknum þá sátu þeir iðulega hlið við hlið Jói Hilmis og Maggi á Vöglum og Jói var alveg höfðinu hærri í sæti.  Jói svindlaði reyndar aðeins af því að hann stóð (sat á hækjum sér) iðulega í stólnum.  Hins vegar þegar þeir stóðu upp þá voru þeir nokkuð álíka háir, enda er líklega leitandi að ólíkari mönnum í vaxtalagi, Maggi klofinn upp að öxlum en Jói hins vegar ákaflega stuttur til klofsins!  Í dag er Maggi hins vegar töluvert hávaxnari en Jói og hefur reyndar vaxið okkur bekkjarfélögunum flestum yfir höfuð og því spyr ég, Maggi ertu örugglega hættur að stækka?

Svar............   Nei alls ekki, nú vex ég á þverveginn.

 

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn............. Heimir Vilhjálmur Pálmason, árgangur 1959.

Spurningin er.................. .................... Í frímínútunum í gaggó voru strákarnir, eins og svo oft, eitthvað að hnoðast eða slást (alltaf samt í þokkalega góðu).   Ekkert þýddi að abbast upp á Heimi Pálmason eða Jón Helga Þórsson, þeir voru svo öflugir.   Heimir, ert þú ennþá svona hraustur ?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir