Nokkur lítil skref fyrir rollu...

Flestir Króksarar, og Herra Hundfúll þar með talinn, hafa í gegnum tíðina glott við tönn og jafnvel gert góðlátlegt grín að heimsóknum sauðfjár inn í bæ þó ýmsir hafi haft þessar heimsóknir á hornum sér. Nöldrandi eigendur fasteigna á Nöfum hafa mætt litlum skilningi og fengið litla hjálp í viðureignum sínum við rolluvarginn sem gengur makindalega um og nagar trjágróður, tjaldvagma og annað girnilegt.

Þegar ritstjóri Feykis gekk fram á nokkra sumarsæla sauði nagandi skrautblóm í paradís Kirkjutorgsins tók hann mynd og rak sauðina síðan burt af torginu. Skrifaði síðan ítarlega frétt um málið sem vakti töluverða athygli og umræður. Einhverjum fannst þetta gott uppátæki hjá sauðfénu að fagna frelsinu með þessum hætti en flestum fannst fokið í flest skjól og nú skyldi sveitarfélagið taka til varna fyrir íbúa sína af mannkyni.

Það er því hætt við að rollurnar hafi nú gengið of langt og jafnvel alveg fram af Króksurum sem nú vilja ristarhlið við innkomu í Krókinn Þverárfjallsvegarmegin – í það minnsta. Eða eins og fyrsti smalinn á tunglinu hefði orðað það: Nokkur lítil skref fyrir rollu, örlagarík skref fyrir rollustofninn!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir