Norðurland versta?

Herra Hundfúll telur að það sé hart í ári hjá íbúum á Norðurlandi vestra. Svo virðist sem tillögur 20/20 hóps, sem starfar undir stjórn borgarfulltrúans Dags B. Eggertssonar, geri ráð fyrir að Norðurland vestra verði afþjónustað eins og kostur er á, enda kostar þjónusta á svæðinu peninga sem þarf að eyða á öðrum og betri stöðum. Það hefur að auki hingað til gengið ágætlega að ganga framhjá þessu svæði og það ætti ekki að verða vandamál frekar en fyrri daginn!  Þá er ekki annað að sjá en Eyfirðingar vilji helst hraðbraut í gegnum Húnavatnssýslu og Skagafjörð sem þræði af öryggi framhjá öllum þéttbýlisstöðum á svæðinu, enda er það örugglega trú þeirra fyrir austan okkur að hringvegurinn sé sérstaklega lagður fyrir þá sem þurfa að komast á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Og vitaskuld er það ósanngjarnt gagnvart þeim sem vilja komast sem fyrst á milli Akureyrar og Reykjavíkur að í skipulagi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sé hugað að þörfum þeirra sem þar búa!? Nei, er nú ekki nóg komið af yfirgangi gagnvart okkur á þessu svæði eða megum við kannski eiga von á því að nafni svæðisins verði breytt úr Norðurlandi vestra í Norðurland versta um leið og síðasti naglinn verður rekinn í kistuna?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir