Baráttusigur Stólastúlkna í framlengingu gegn Keflavík b

Karen Lind var fín í liði Tindastóls í dag. MYND: HJALTI ÁRNA
Karen Lind var fín í liði Tindastóls í dag. MYND: HJALTI ÁRNA

Stólastúlkur spiluðu áttunda leik sinn í 1. deild kvenna í dag þegar b-lið Keflavíkur kom í heimsókn í Síkið. Úr varð hörkuleikur sem var æsispennandi fram á síðustu mínútu en leikurinn var framlengdur. Bæði lið spiluðu öflugan varnarleik og það fór svo í framlengingunni að úrslitin réðust á vítalínunni og lokatölur 73-70.

Þær Marín Lind og Kristín Halla gerðu fyrstu körfur leiksins en Keflvíkingar voru snöggir að komast yfir. Annar þristur Kristínar Höllu þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar komu Stólunum aftur yfir, 10-9, og það voru heimastúlkur sem höfðu yfirhöndina út leikhlutann. Staðan 21-15 að honum loknum og lið Tindastóls náði tvívegis níu stiga forystu í öðrum leikhluta en lið gestanna gaf ekkert eftir, skipað stelpum sem kunna leikinn, og þær hleyptu heimastúlkum ekki of langt frá sér. Staðan var 40-34 í hálfleik.

Keflvíkingar stigu upp í vörninni í byrjun síðari hálfleiks, þær jöfnuðu leikinn 40-40, en Marín Lind og Tess komu Stólastúlkum aftur í gírinn. Bæði lið skelltu í lás í vörninni en lið Tindastóls var alltaf fetinu framar í stigaskorin en Keflavík minnkaði muninn í tvö stig áður en leiktíminn rann út í þriðja leikhluta. Gestirnir jöfnuðu í 51-51 strax í upphafi fjórða leikhluta og komust yfir skömmu síðar í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta. Nú varð leikurinn að algjörum naglbít. Munurinn varð aldrei meiri en þrjú stig og oftar en ekki var jafnt. Þristur frá Hrefnu Odds kom Stólunum yfir 62-60 og Kristín Halla jók muninn í þrjú stig þegar hálf mínúta var til leikslok. Sara Kristjáns jafnaði í 63-63 með ísköldum þristi þegar 13 sekúndur voru eftir og lið Tindastóls náði ekki að nýta tímann sem eftir var. Því var framlengt og ríflega hundrað áhorfendur vægast sagt orðnir spenntir.

Stál í stál í Síkinu

Anna Svans hóf framlenginguna fyrir Keflavík með því að skella í þrist en Tess minnkaði muninn. Eydís Þóris skoraði of auðvelda körfu fyrir Keflara en Tess minnkaði muninn á ný með íleggju og Karen Lind kom Stólunum síðan yfir, 69-68, en enn voru tvær mínútur eftir og hasar um allan völl. Gestirnir klikkuðu á þristi og Tess fékk tvö víti sem hún setti að sjálfsögðu niður. Eydís Þóris minnkaði í eitt stig með vítaskotum, Tess klikkaði á þristi en Kristín Halla, sem átti fínan leik, náði sóknarfrákasti og brotið var á henni. Hún setti annað vítið niður og í næstu sókn gestanna varði Hrefna Ottós skot og hirti síðan frákast, Eva Dags fékk boltann og brunaði fram en brotið var á henni. Hún setti annað vítið sitt niður, staðan orðin 73-70, og Tess stal síðan boltanum áður en Keflvíkingar gátu skotið. 

Frábær og sætur sigur hjá Stólastúlkum sem sitja á ný í efsta sæti 1. deildar en reyndar búnar að leika fleiri leiki en andstæðingarnir. Sem fyrr segir var vörnin spiluð af krafti í dag og liðin leituðu því þó nokkuð í 3ja stiga skotin en þar var reyndar fátt um fína drætti. Tess, Hrefna og Kristín Halla settu tvö 3ja stiga skot niður hvor og Karen eitt en nýtingin var aðeins 19% (7/37) en var þó skárri en hjá gestunum sem voru með 16% nýtingu (5/31). Lið Tindastóls reyndist sterkara í fráköstunum og það kom sér vel á lokakaflanum þar sem nokkur stór sóknarfráköst náðust. 

Tess var lögum samkvæmt stigahæst með 26 stig og hún hirti 14 fráköst. Hrefna átti flottan leik með 14 stig og sjö fráköst, Kristín Halla var með átta stig og tíu fráköst, Marín Lind átta stig og Karen Lind sjö og sex fráköst. Þá skilaði Eva Dags fimm stigum og fimm fráköstum.

Stólastúlkur spila næst í Njarðvík sem er eitt af toppliðum deildarinnar. Sá leikur verður 24. nóvember, að viku liðinni, í Njarðtaks-gryfjunni og hefst kl. 16:00. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir