Davis Geks nýr leikmaður Tindastóls - Uppfært: Leik Tindastóls og Hattar frestað

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við lettneska leikmanninn Davis Geks um að leika með karlaliðinu út tímabilið. Í tilkynningu deildarinnar kemur fram að Geks sé skotbakvörður og komi til liðsins úr eistnesku deildinni þar sem hann spilaði með BK Liepja. 

Þar skilaði hann að meðaltali 12,1 stigi, 3,4 fráköstum og 2,1 stoðsendingu í leik. Geks hefur einnig spilað í efstu deild í Litháen auk næst efstu deild Spánar og bætist nú við sterkan leikmannahóp Tindastóls fyrir lokaátökin í Subway deildinni.

Tindastóll hefur átt í mesta brasi með stigasöfnunina í vetur en liðið situr nú í 6. sæti Subway deildar eftir fjórtán umferðir með sjö vinningsleiki og sjö tapleiki.

Í kvöld mæta Stólar Hattarmönnum frá Egilsstöðum í Síkinu en Höttur hefur verið sýnd veiði en ekki gefin.  Liðið er í 9. sæti með 10 stig og er til alls líklegt en eins og einhverjir muna unnu Hattarmenn fyrri leikinn gegn Tindastól 73:69 svo það er eins gott að vanmeta ekki þetta spræka lið. Allir eru hvattir til að mæta í Síkið í kvöld og styðja við Stólana. Áfram Tindastóll!

Uppfært.

Í tilkynningu frá KKÍ kemur fram að tveimur leikjum kvöldsins hefur verið frestað að fenginni ráðleggingu Vegagerðarinnar. Annars vegar leik Tindastóls og Hattar í Subway deild karla og hins vegar leik Þórs Ak. og Hrunamanna í 1. deild karla. Unnið er að því að finna nýja leiktíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir