Er hægt að blása lofti í sprungna blöðru?

Udras í baráttunni og boltinn laus. MYND: HJALTI ÁRNA
Udras í baráttunni og boltinn laus. MYND: HJALTI ÁRNA

Síðasta umferðin í Dominos-deildinni var spiluð í kvöld og fengu Tindastólsmenn lið Stjörnunnar í heimsókn í galtómt Síkið. Sigur hefði tryggt heimamönnum spennandi einvígi við lið Þórs Þorlákshöfn í úrslitakeppninni en úrslit kvöldsins fóru á þann veg að lið Tindastóls endaði í áttunda sæti deildarinnar og spilar því við Keflavík í átta liða úrslitum. Það þýðir auðvitað að leikurinn gegn Stjörnunni tapaðist og þrátt fyrir að leikurinn hafi verið ágæt skemmtun og spennandi þá var þetta undarlega andlaust hjá heimamönnum. Lokatölur 96-102 eftir framlengingu.

Gestirnir voru sterkari í fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum 13-20. Stólarnir hófu annan leikhluta af kraftir og minnkuðu muninn í eitt stig en Stjarnan rétti aftur úr kútnum og gestirnir voru yfirleitt þetta 2-6 stigum yfir fram að hléi. Tomsick gerði sex síðustu stig Stólanna og minnkaði muninn í eitt stig þannig að staðan í hálfleik var 44-45. Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en það voru þá Stjörnumenn sem leiddu lengstum. Endrum og sinnum komust Stólarnir yfir en þeir skutu sig jafnan í fótinn í framhaldinu með klaufagangi og slæmum ákvörðunum.

Stjarnan var sex stigum yfir þegar lokafjórðungurinn hófst, 62-68, og þeir komust fljótlega átta stigum yfir. Um miðjan leikhlutann gekk lítið hjá gestunum og þristar frá Tomsick og Udras minnkuðu muninn í eitt stig, 75-76, og þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka kom Whitfield liði Tindastóls loks yfir, 81-79, og Udras bætti tveimur stigum við. Brodnik kom heimamönnum fimm stigum yfir þegar tæplega ein og hálf mínúta var eftir, 86-81, en lokakaflinn var grátlega slakur þar sem halda mátti að lið Tindastóls væri skíthrætt við að vinna leikinn. Pétur gat farið langt með að tryggja sigurinn af vítalínunni en setti bara annað skotið niður og Ægir Þór jafnaði leikinn með auðveldu stökkskoti. Staðan 87-87 og leikurinn framlengdur.

Það þótti eitthvað fínt hjá Stólunum að gefa Ægi nokkur skot og þristur frá honum kom Stjörnunni sjö stigum yfir um miðja framlengingu. Tomsick og Brodnik svöruðu með þristum og munurinn eitt stig. Stólarnir unnu síðan boltann og fengu víti þegar 45 sekúndur voru eftir en Udras klikkaði á báðum skotunum, Brodnik náði frákastinu og sendi boltann á Tomsick sem féll kylliflatur á auglýsingalímmiða á gólfinu og missti boltann. Mirza rak svo naglann í kistu Stólanna með örvæntingarþristi rétt áður en skotklukkann rann út og þar með voru úrslitin ráðin.

Kannski var lið Tindastóls bara einum auglýsingalímmiða frá því að tryggja sér sjöunda sætið í deildinni en var ekki stefnan sett hærra? Stemningsleysið í liði Tindastóls var þrúgandi í kvöld. Hvar er gamli góði fítonsandinn í leikhléum þar sem menn skiluðu sér út á parketið uppveðraðir og til í slaginn? Hvar er ákefðin, stoltið og leikgleðin? Það lítur einfaldlega út fyrir að þessir leikmenn séu ekki tilbúnir að fara alla leið fyrir þjálfarann. Það lítur út fyrir að þjálfaranum hafi mistekist að búa til lið. Það lítur út fyrir að menn séu löngu orðnir hundleiðir á þessum langa körfuboltavetri. Það lítur út fyrir að nú séu góð ráð dýr. 

Á lið Tindastóls einhvern möguleika á að standa í meistaraliði Keflavíkur í úrslitakeppninni? Það er ólíklegt en stuðningsmenn fara ekki fram á annað en Tindastólsmenn sýni hjarta og berjist til síðustu sekúndu. Upp með hausinn og áfram gakk!

Tölfræði á vef KKÍ >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir