Hilmir Rafn Íþróttamaður USVH 2025

Guðmar, Rósa sem tók við viðurkenningu fyrir Helgu, Hilmir og Saga. MYND USVH.
Guðmar, Rósa sem tók við viðurkenningu fyrir Helgu, Hilmir og Saga. MYND USVH.

Mánudaginn 29 desember fór fram verðlaunaafhending á Íþróttamanni USVH árið 2025 í félagsheimilinu á Hvammstanga þar sem saman var komin fjöldi fólks. Íþróttamaður USVH árið 2025 var valinn Hilmir Rafn Mikaelsson. 

Fram kom á vef USVH að Hilmir hafi átt frábært keppnisár 2025 og hélt áfram að bæta sig sem knattspyrnumaður. Hann lék með aðalliði Viking FK í Noregi, þar sem hann varð Noregsmeistari með liðinu núna í nóvember sl. sem er fyrsti meistaratitill liðsins í 34 ár. Á árinu kom Hilmir við sögu í 18 leikjum með aðalliði Viking í deild, bikar og Evrópukeppni og skoraði alls 8 mörk, þar af 2 í norsku úrvalsdeildinni. Hilmir var einnig fastamaður í íslenska U21 árs landsliðinu þar sem hann lék 9 landsleiki og skoraði 3 mörk. Frammistaða Hilmis á árinu endurspeglar mikinn metnað, dugnað og stöðugar framfarir og er hann orðinn einn af efnilegustu knattspyrnumönnum landsins.

Aðrir sem hlutu tilnefningu voru: Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal. Guðmar Hólm keppir í ungmennaflokki í hestaíþróttum og átti þar farsælt keppnisár, hann keppir jafnframt í fullorðins flokki í Meistaradeild KS. Hann náði 19 sinnum á árinu að vera í úrslitum á keppnisvellinum. Þar af varð hann í fyrsta sæti 5 sinnum. Auk þess varð hann í 2. sæti í einstaklingskeppni Meistaradeildar KS.

Helga Una Björnsdóttir. Helga Una átti farsælt keppnisár í hestaíþróttum. Hún náði þeim einstæða árangri að vera valin í Landslið Íslands í hestaíþróttum og varð á Heimsmeistaramótinu í öðru sæti í slaktaumatölti T2. Jafnframt varð hún Íslandsmeistari í þeirri grein. Hún varð 12 sinnum á árinu í úrslitum á keppnisvellinum og þar af tvisvar í 1. sæti.

Saga Ísey Þorsteinsdóttir. Saga Ísey Þorsteinsdóttir stóð sig vel á árinu 2025 með Tindastól í bestu deild kvenna og tók þónokkrum framförum í knattspyrnu. Hún lék 17 leiki með meistaraflokki í deild og bikurum og skoraði 2 mörk, auk þess sem hún spilaði 6 leiki með 2. flokki í sameiginlegu liði Tindastóll/Hvöt/Kormákur og skoraði þar 6 mörk. Um mitt sumar varð hún fyrir því óhappi að slíta krossbönd og spilaði því ekki meira á árinu. Hún er samviskusöm og duglegur leikmaður.

Þá voru veitt Hvatningarverðlaun USVH árið 2025 en þau hlutu: Ari Karl Kárason, Benedikt Logi Björnsson, Ísar Myrkvi Birgisson, Róbert Sindri Valdimarsson, Jóhanna Guðrún Jóhannsdóttir, Ágústa Sóley Brynjarsdóttir, Gígja Kristín Harðardóttir, Herdís Erla Elvarsdóttir, Sigríður Emma Magnúsdóttir, Nóa Sophia Ásgeirsdóttir, Júlía Sólín Ásgeirsdóttir, Líney Hekla Antonsdóttir, Inga Lena Apel Ingadóttir, Aldís Antonía Lundberg Júlíusdóttir, Helga Mist Magnúsdóttir og Herborg Gróa Hannesdóttir.

Nánar má lesa um verðlaunahafa HÉR

Fleiri fréttir