Keflvíkingar reyndust sterkari í Síkinu

Simmons tekur skot. MYND: HJALTI ÁRNA
Simmons tekur skot. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Keflavík mættust í 1. umferð Dominos-deildarinnar í Síkinu í kvöld. Óhætt er að fullyrða að talsverð eftirvænting hafi verið hjá stuðningsmönnum Tindastóls að sjá mikið breytt lið sitt mæta til leiks en því miður var fátt sem gladdi augað að þessu sinni. Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik og frábær byrjun gestanna í síðari hálfleik reyndist of stór biti fyrir lið Tindastóls sem gerði þó sitt besta til að halda spennu í leiknum. Sigur Keflvíkinga var þó sanngjarn en lokatölur voru 77-86.

Leikmenn Tindastóls léku glimrandi vel fyrstu mínútur leiksins og Austantjaldstríóið okkar raðaði niður körfum.  Stólarnir komust í 8-0 og hefðu hæglega getað aukið muninn en það kom snemma í ljós að hittni leikmanna utan 3ja stiga línunnar var ekki upp á marga fiska. Áður en fyrsti leikhluti var úti höfðu Keflvíkingar komist yfir en jafnt var að loknum fyrsta leikhluta, 19-19. Stólarnir gerðu ágætlega í að loka á Hörð Axel en því miður gekk ansi brösuglega að verjast Khalil Ahmad og Dominykas Milka sem virtist hreinlega skora þegar honum sýndist. Keflvíkingar komust í 25-32 um miðjan annan leikhluta og þá loks gerði Gerel Simmons sína fyrstu körfu í leiknum en fram að því höfðu einungis Bilic, Brodnik og Perkovic skorað fyrir lið Tindastóls. Simmons sýndi mjög smarta takta af og til, gríðarlega snöggur og með frábærar hreyfingar, og hann sá til þess að staða Stólanna væri ekki óþarflega döpur í hálfleik en kappinn setti niður frábæran þrist í þann mund sem leiktíminn rann út og fékk víti í kaupbæti. Staðan 41-44 í hálfleik.

Það hvorki gekk né rak hjá heimamönnum í  byrjun þriðja leikhluta. Hvað eftir annað unnu gestirnir boltann og skoruðu í andlitið á ráðvilltum Stólum. Á fyrstu fjórum mínútunum gerðu gestirnir 15 stig en Stólarnir tvö og staðan 43-61. Baldur setti þá gömlu refina Helga Rafn og Axel inn á og þeir náðu að hrista aðeins upp í leiknum. Helgi gerði sér lítið fyrir og gerði fyrstu „íslensku“ körfu Tindastóls í leiknum þegar tæpar 26 mínútur voru liðnar af leiknum og það kann að sjálfsögðu ekki góðri lukku að stýra. Ellefu stigum munaði á liðunum fyrir lokafjórðunginn, staðan 57-68, og í lokafjórðungnum reyndu heimamenn ítrekað að ná upp stemningu og keyra sig inn í leikinn. Áhorfendur voru ánægðir þegar góðar körfur frá Brodnik, Axel og Helga minkuðu muninn og þristur frá Perkovic breytti stöðunni í 69-73. Dúkkaði þá ekki Magnús Már, einu sinni sem oftar, í horninu og setti niður þrist  og Milka og Ahmad bættu um betur, aftur kominn ellefu stiga munur og var þá mesti móðurinn af heimamönnum. Simmons gerði sitt besta til að halda Stólunum inni í leiknum en það dugði ekki til og lokatölur 77-86.

Það er að sjálfsögðu fullsnemmt að dæma lið Tindastóls út frá einum leik þó ljóst sé að leikur liðsins í kvöld hafi valdið vonbrigðum. Það er líka risaskellur fyrir Stólana að vera án Péturs Birgissonar sem hefur glímt við meiðsli frá því í fyrsta æfingaleik haustsins og ekkert verið með síðan og það er óvíst hvenær hann snýr aftur á parkettið. Gerel Simmons var bestur í liði Tindastóls, gerði 26 stig og sýndi oft glæsilega takta. Sinica Bilic var öflugur framan af leik og gerði í fyrri hálfleik 14 af 15 stigum sínum í leiknum. Perkovic gerði 14 stig en var mistækur líkt og Brodnik sem gerði 11 stig í leiknum. Helgi Rafn skilaði átta stigum og dró stríðsvagninn þegar Stólarnir reyndu að berja sig inn í leikinn. Axel setti niður þrist en aðrir komust ekki á blað. Lið Tindastóls hefur sennilega aldrei haft á jafn hávöxnu liði að skipa en engu að síður var það Viðar sem tók flest fráköst Tindastólsmanna eða sjö stykki. Nýtingin í 3ja stiga skotum var vandræðaleg, 7 niður í 31 tilraun, en nýting gestanna var svo sem ekki mikið skárri, 10 í 32.

Í liði Keflavíkur var Milka atkvæðamestur með 26 stig og setti niður níu af þrettán skotum sínum í leiknum. Ahmad var sömuleiðis ansi magnaður með 23 stig og svo var Stólabaninn Magnús Már á sínum stað og skilaði 17 stigum svo lítið bar á. Keflvíkingar virtust hafa fleiri og ólíkari vopn í sínu búri á meðan leikur Stólanna virkaði ansi einsleitur.

Það dugar hins vegar lítið að velta sér upp úr neikvæðni eftir einn leik. Nú er það bara þetta gamla góða áfram gakk. Að viku liðinni tölta Stólarnir niður í Njarðvík og spila þar við þá grænu fimmtudagskvöldið 10. október og hefst leikurinn kl. 20:15. Rétt er að fjölmenna í Ljónagryfjuna og hvetja strákana til dáða. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir