Keflvíkingar stungu Stólana af í fjórða leikhluta

Calloway var með 15 stig í kvöld. Hér er hann í leik gegn Álftanesi á dögunum. MYND: SIGURÐUR INGI
Calloway var með 15 stig í kvöld. Hér er hann í leik gegn Álftanesi á dögunum. MYND: SIGURÐUR INGI

Lið Tindastóls mætti Keflvíkingum suður með sjó í Subway-deildinni nú í kvöld. Leikurinn var bísna fjörugur og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Gestirnir leiddu 53-58 í hálfleik en Keflvíkingum tókst að gera Stólunum erfitt fyrir í síðari hálfleik og stungu síðan af með stigin tvö í fjórða leikhluta sem þeir unnu 28-12 og leikinn þar með 99-86.

Það var hasar og læti í fyrsta leikhluta og bæði lið á eldi. Fjórir þristar frá Þóri í fjórum tilraunum voru vel þegnir hjá gestunum og Tindastólsliðið var yfir að loknum fyrsta leikhluta, 32-33. Calloway og Arnar gerðu tvær körfur hvor í upphafi annars leikhluta og Stólarnir þá komnir með ellefu stiga forystu, 32-43. Keflvíkingar svöruðu fyrir sig og minnkuðu forskot gestanna fyrir hlé. Staðan 53-58 eftir að Martin svaraði tveimur þristum frá Arnari þeð flautuþristi.

Heldur gekk liðunum verr að koma boltanum í körfurnar í þriðja leikhluta, Keflvíkingar minnkuðu muninn í eitt stig en tveir þristar frá Arnari breyttu stöðunni í 60-66. Fjögur stig frá Calloway komu liði Tindatóls sex stigum yfir, 68-74, rétt fyrir lok þriðja leikhluta en Daneiro Thomas átti lokaorðið og smellti niður þristi og munurinn þrjú stig. Keflvíkingar náðu síðan undirtökunum í upphafi fjórða leikhluta, komust strax yfir en aðeins munaði þó tveimur stigum þegar sex mínútur voru til leiksloka, 81-79. Á næstu þremur mínútum gerðu heimamenn níu stig á meðan ekkert gekk hjá Stólunum og þar með var björninn unninn.

Arnar var stigahæstur Stólanna með 22 stig, Þórir skilaði 21 stigi, Calloway var með 15, Lawson 12 og Drungilas 10. en hann hirti 15 fráköst í leiknum. Stólarnir settu 17 3ja stiga körfur í 45 skotum sem er 37% nýting. Lið Tindastóls er nú í sjöunda sæti Subway-deildarinnar og menn þurfa að fara að finna taktinn saman fyrr en síðar – ekki síst ef liðið ætlar sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Deildin er hins vegar hnífjöfn og skemmtileg og allt getur gerst. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir