Keppnisferð Jóhönnu Maríu í júdó til Hollands og Belgíu

Mæðgurnar Jóhanna María og Annika Noack. Aðsend mynd.
Mæðgurnar Jóhanna María og Annika Noack. Aðsend mynd.

Í janúar fór Jóhanna María Grétarsdóttir Noack, sem er iðkandi í Júdódeild Tindastóls, í heimsókn til ömmu sinnar og afa í Þýskalandi. Ferðin var einnig notuð til að freista gæfunnar í keppni í júdó á erlendri grundu í fyrsta skipti en Jóhanna María keppti á tveimur alþjóðlegum mótum, annars vegar á Trofee van de Donderslag í Belgíu og hins vegar Matsuru Dutch Open Espoir í Hollandi.

Í Belgíu keppti Jóhanna María í flokk U13, -40kg og segir þjálfari hennar, Annika Noack sem einnig er móðir hennar, að hún hafi staðið sig mjög vel. Endaði Jóhanna María í öðru sæti eftir að hafa unnið tvær viðureignir en varð að lúta í lægra haldi í jafnri úrslitaglímu.

„Mótið í Hollandi var mjög stórt með keppendum frá mörgum löndum, s.s. Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu og Litháen. Jóhanna María keppti upp fyrir sig í aldri í U15, -36kg flokki. Þar tapaði hún tveimur viðureignum sínum þrátt fyrir að hafa átt góða möguleika á sigri í þeim báðum. Í fyrri viðureigninni skoraði hún waza-ari en tapaði svo á ippon eftir hörku viðureign. Í seinni glímunni var andstæðingurinn nokkuð stærri og þó hún hefði verið ansi nálægt því að fá skor tapaði hún á endanum,“ segir þjálfarinn sem er mjög ánægður með frammistöðuna. „Jóhanna María stóð sig sannarlega með prýði í sínum fyrstu keppnum á þessu stóra sviði.“

Jóhanna María varð Íslandsmeistari í júdó í flokki U13 á Íslandsmeistaramóti yngri flokka sem fram fór hjá júdódeild Ármanns síðasta vor og í kjölfarið svaraði hún spurningum í Íþróttagarpi Feykis sem nálgast má HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir