Júdó er ekki bara fyrir stráka! :: Íþróttagarpurinn Jóhanna María Íslandsmeistari í júdó

Jóhanna María Grétarsdóttir Noack, Íslandsmeistari í júdó, ásamt móður sinni og þjálfara Anniku Noack. Mynd: Grétar Karlsson
Jóhanna María Grétarsdóttir Noack, Íslandsmeistari í júdó, ásamt móður sinni og þjálfara Anniku Noack. Mynd: Grétar Karlsson

Jóhanna María Grétarsdóttir Noack, varð Íslandsmeistari í júdó í flokki U13 á Íslandsmeistaramóti yngri flokka sem fram fór hjá júdódeild Ármanns í Reykjavík þann 21. maí síðastliðinn. Varð sigurinn einkar glæsilegur þar sem Jóhanna þurfti að glíma við drengi þar sem hún var eina stúlkan í sínum flokki eins og Feykir greindi frá á sínum tíma.

Jóhanna María býr á Sauðárkróki og segist alltaf vera kölluð Hanna Maja. Hún er dóttir Grétars Karlssonar og Anniku Noack sem bæði vinna í FNV en hún er frá Þýskalandi og flutti til Íslands 2000.

Hanna Maja byrjaði ung að æfa júdó eða á vorönn 2015 þá þriggja ára og segir hún að vel hafi gengið síðan. Æfingarnar hafi verið skemmtilegar og segist hún hafa bætt sig mikið í vor enda þjálfarinn góður sem vill svo vel til að er móðir hennar, Annika Noack. 
Hanna Maja svarar hér spurningum í Íþróttagarpi Feykis.

Vel gekk hjá þér á Íslandsmeistaramótinu á dögunum, bjóstu við þessum árangri? -Eiginlega ekki, en það mátti vona.

Hvernig er tilfinningin að vera Íslandsmeistari í júdó? -Mjög góð.

Ertu búinn að ákveða hvað á að gera í sumar? -Hafa gaman, bæta mig í júdó og hitta vini og ættingja.

Stundar þú aðrar íþróttir? -Já, ég leik mér á skíðum, fer í sund, hjóla og þess háttar en æfi ekki aðrar íþróttagreinir.

Helstu íþróttaafrek: -Íslandsmeistari í Júdó í U13, -38kg.

Skemmtilegasta augnablikið: -Afhending verðlaunapeninga.

Neyðarlegasta atvikið: -Að ég náði ekki að binda beltið mitt nóg vel í glímu um titillinn og þurfti að binda það aftur og aftur.

Einhver sérviska eða hjátrú? -Nei.

Uppáhalds íþróttamaður? -Elvira Dragemark, júdókona.

Á Jólamóti Tindastóls 2021.
Myndin tók Katharina Sommermeier.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Kökubakstur á móti pabba.

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Það væri rosalega fyndið og á endanum er bara hægt að borða eina köku, mína!

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Að sigra lofthræðsluna mína með því að stökkva niður af þriggja metra bretti í sundi.

Lífsmottó: -Aldrei gefast upp!

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Mamma mín, af því að hún er æði.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Hafa gaman með vinum.

Hvað er framundan? -Júdónámskeið í sumar og svo Haustmót JSÍ.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Júdó er ekki bara fyrir stráka!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir