Keyrum þetta í gang!

Flenard Whitfield sýndi góða takta í Síkinu í gær. MYND: HJALTI ÁRNA
Flenard Whitfield sýndi góða takta í Síkinu í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Sástu leikinn í gær? Já. Hvernig var hann? Viltu góðu eða vondu fréttirnar fyrst? Góðu. Ókei, Tindastóll skoraði 99 stig. Já, flott, en vondu? Jú, KR skoraði fleiri stig og vann leikinn. Hvað er að? Það veit enginn en þetta er nú að verða orðið gott, strákarnir þurfa að fara að rífa sig í gang ef ekki á illa að fara.

Svona gæti týpiskt samtal á Króknum hljómað nú í morgunsárið... þó kannski full pent orðað í þessu tilviki. Þriðji tapleikurinn í röð staðreynd og nú þarf togarinn Tindastóll að fara að fiska því liðið er sem stendur í áttunda sæti Dominos-deildarinnar en þrjú lið anda ofan í hálsmálið á þeim; Höttur, Þór Akureyri og Valur. Næsti leikur er í Njarðvík og nú þurfa Baldur og strákarnir að dúkka upp með djúsí vinningsformúlu því markmið liðsins hlýtur nú að vera að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Leikurinn í gær var fjörugur, hnífjafn og æsispennandi og lá við að liðin væru í endalausu faðmlagi allan leikinn. Það voru þó gestirnir sem voru yfirleitt skrefinu á undan. Lið Tindastóls komst nokkrum sinnum yfir í leiknum en Vesturbæingarnir voru jafnan fljótir að grípa frumkvæðið á ný. Staðan í hálfleik var 43-49 en Tindastólsmenn sýndu góðan leik í þriðja leikhluta, komust fjórum stigum yfir, 63-59, upp úr miðjum leikhlutanum og voru enn yfir þegar fjórði leikhluti hófst, 75-73. Bjössi Kristjáns og Tyler Sabin voru Stólunum erfiðir í byrjun fjórða leikhluta og náði KR átta stiga forystu eftir fjögurra mínútna leik. Mestur varð munurinn ellefu stig þegar tvær mínútur voru eftir en tveir snöggir þristar frá Tomsick hleyptu spennu í leikinn. Brodnik fékk síðan tvö víti og minnkaði muninn í þrjú stig, 95-98, en Stólarnir voru ekki nógu skynsamir í varnarleiknum í næstu sókn KR og gestirnir sigldu sigrinum í höfn. Lokatölur 99-104.

Flenard Whitfield, nýr Kani Tindastóls, var nokkuð óvænt mættur til leiks og átti fínan leik. Þær 27 mínútur sem hann spilaði vann lið Tindastóls með tíu stiga mun. Kappinn gerði 22 stig og hirti 16 fráköst og lofar góðu upp á framhaldið. Tomsick var þó stigahæstur með 27 stig, þar af setti hann niður sjö þrista í 14 tilraunum. Skotnýting Stólanna utan 3ja stiga línunnar var ágæt í leiknum, 40%, en eyðimerkurganga Péturs utan landhelginnar hélt því miður áfram í gær. Pétur var með sex stig í leiknum en níu fínar stoðsendingar. Shawn Glover var ekki á skýrslu hjá liði Tindastóls. Tyler Sabin átti frábæran leik fyrir KR og virðist hafa gaman af því að spila gegn Stólunum. Hann gerði 36 stig í leiknum.

Lið Tindastóls sýndi á köflum ágætan leik í gær en þeir voru ekki nógu góðir til að vinna sprækt lið KR. Í viðtali við Körfuna kvaðst Helgi Rafn fyrirliði viss um að þetta færi að smella hjá Stólunum, hann var ósáttur við að fá á sig 104 stig og fúll yfir því að KR skoraði 31 stig í fjórða leikhluta. Hann sagði að Flenard liti vel út en félagar hans hittu hann fyrst tveimur tímum fyrir leik að lokinn sóttkví. Síðan smellti fyrirliðinn í eitt gamalt og gott áfram gakk!

Leikskýrsla á vef KKÍ >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir