Klásúla í samningi Shawn Glover gerði Tindastólsmönnum erfitt fyrir

Eftir síðasta leik, gegn Grindavík, var reynt að finna lausnir á íþyngjandi klásúlu í samningi Shawn Glover og fá hann til að klára tímabilið. Mynd: Hjalti Árna.
Eftir síðasta leik, gegn Grindavík, var reynt að finna lausnir á íþyngjandi klásúlu í samningi Shawn Glover og fá hann til að klára tímabilið. Mynd: Hjalti Árna.

Nú hefur KKÍ staðfest félagsskipti Flenard Whitfield í Tindastól og mun hann því leika með liðinu í Dominos deild karla í körfubolta það sem eftir lifir tímabil. Flenard lék á síðasta tímabili með Haukum var í liði Skallagríms veturinn 2016-2017. Að sögn Baldurs Þórs Ragnarssonar, þjálfara Tindastóls, var ekki annað í stöðunni en semja við annan Bandaríkjamann þar sem óvíst væri með vilja Shawn Glover að klára tímabilið á Króknum.

Baldur segir að Shawn hafi verið með ákveðna klásúlu í samningi sínum við Tindastól sem geri honum kleift að losna undan samningi hvenær sem er, fyrir ákveðið verð. Farið hefði verið af stað í haust með þessa klásúlu með það að markmiði að setjast niður með leikmanninum um jólin og taka þá stöðuna og þá reyna að taka fyrrnefnda klásúlu út úr samningnum sem ekki gekk upp.

„Við settumst svo niður með honum eftir síðasta leik gegn Grindavík og vildum finna lausnir á því að breyta þessu ákvæði og fá hann til að klára tímabilið og sýna commitment fyrir klúbbinn. Hann, með sínum umboðsmanni neituðu þessu og svarið var bara þannig að daginn eftir var hann boðinn til flestra klúbba í Evrópu og á Íslandi líka. Með það að glugginn sé að loka 1. mars þá setti þetta okkur algjörlega í þá stöðu að við urðum að semja við annan Bandaríkjamann ef við ætluðum ekki að missa bandaríska ígildið þegar myndi líða á tímabilið,“ segir Baldur.

Aðspurður um framtíð Glowers bendir Baldur á að hann sé enn á samningi hjá Tindastól og verði það þangað til annað verði ákveðið. „Flennard kemur ekki strax til landsins og gæti misst af fyrstu leikjum. Svo verður staðan tekin með Shaun en það er ekki komin nein ákvörðun um það enn.“

Flennard hefur ekki leikið körfubolta síðan hann var með Haukum í fyrra og því stór spurning í hvað formi hann er en nýlegar myndir af honum gefa til kynna að hann sé ágætis standi líkamlega. „Maður veit það að körfuboltastandið tekur smá stund að kikka inn. Hins vegar er Flennard þekkt stærð og með toppeinkunn frá þeim sem hafa unnið með honum á Íslandi. Hann er með góðan leikskilning, góður varnarlega og fittar inn í ákveðið hlutverk sem gæti mögulega stoppað í einhver göt sem við höfum átt við að glíma, og góður karakter. Ég hef trú á því að hann komi með góðan vinkil inn í þetta,“ segir Baldur.

Tengd frétt: Flenard Whitfield í Tindastól?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir