Kormákur Hvöt ætlar sér upp um deild

Undanfarin 10 ár hafa Kormákur frá Hvammstanga og Hvöt frá Blönduósi sent sameiginleg lið til leiks í mótum KSÍ í meistaraflokki karla. Í tilefni af þessum áfanga blés nýtt meistaraflokksráð í herlúðra og horft er til sumarsins mjög björtum og metnaðarfullum augum.

Undanfarin tvö ár hefur liðið verið hársbreidd frá því að komast upp í 3. deild, en í bæði þessi skipti hefur Kormákur Hvöt unnið sinn riðil og farið í fjögurra liða úrslit 4. deildarinnar. Það er því ljóst að markmið sumarsins er að gera einum betur og klára dæmið. Stefnan er tekin á 3. deildina 2022 og af því verður ekki gefinn neinn afsláttur.

Frá upphafi hefur verið horft í það að liðið sé vettvangur fyrir unga leikmenn úr Húnavatnssýslunum til að stíga sín fyrstu skref á Íslandsmótum, einnig að hryggjarsúla liðsins séu leikmenn af svæðinu og nærsveitum, en lykilstyrkingar sóttar þegar þess hefur verið þörf. Hið sama verður uppi á teningnum í sumar. Þá er verið að vinna í að ganga frá þjálfaramálum fyrir sumarið og nýtt merki hins sameiginlega félags var nýlega kynnt.

Fylgist með næstu skrefum Kormáks Hvatar á leið sinni upp stigann á Íslandsmótinu!

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir