Landsmót í leirdúfuskotfimi á Blönduósi um helgina
Landsmót STÍ í skotfimi verður haldið á Blönduósi um helgina. Keppt er í skotgreininni "skeet" eða leirdúfuskotfimi og segir Guðmann Jónasson hjá skotfélaginu Markviss að von sé á flestum, ef ekki öllum, bestu leirdúfuskyttum landsins til keppni, en mótin á Blönduósi hafa alltaf verið vel sótt. Markviss á keppendur bæði í kvenna- og karlaflokki og kveðst Guðmann bjartsýnn á gengi þeirra.
Að sögn Guðmanns er þetta áttunda árið í röð sem eitt af landsmótum STÍ er haldið á Blönduósi, hér á árum áður voru haldin landsmót af þeim Markviss mönnum en svo lá mótahald niðri um nokkurra ára skeið. Guðmann er í forsvari fyrir undirbúning og sinnir starfi mótstjóra, ásamt því að vera keppandi á mótinu. Aðspurður um umfang undirbúningsins gerir hann ekki mikið úr því: „Vinna við undirbúning mótsins er alltaf einhver,en þetta kemst upp í vana.“
En hvernig skyldi þessi keppnisgrein, „Skeet“, fara fram?
Keppnisvöllur í „skeet“ er hálfhringlaga með samtals átta skotstöðvum eða pöllum. Á endum vallarins eru hús þar sem kastvélar eru staðsettar. Skotnar eru 5 umferðir eða samtals 125 leirdúfur. Eftir það fara sex stigahæstu keppendur í "semi final", tveir efstu úr "semifinal" fara svo í úrslit og skjóta um 1.-2. sæti,3. og 4. efstu skjóta um bronsið, útskýrir Guðmann, og hvetur fólk til að líta við og fylgjast með keppninni.