Liðið þarf smá tíma til að slípast saman

Ingvi Rafn í slagnum. MYND: ÓAB
Ingvi Rafn í slagnum. MYND: ÓAB

„Leikurinn við Reyni var heilt yfir nokkuð vel spilaður. Sóknarlega náðum við að halda betur í boltann en við gerðum á móti Selfossi og við vorum að fá góðar opnanir hátt á vellinum en náðum ekki að nýta þær stöður nægilega vel,“ sagði Ingvi Rafn Ingvarsson, þjálfari Kormáks/Hvatar, þegar Feykir spurði hann út í leikinn gegn Reyni Sandgerði í 2. umferð 2. deildar en leikurinn fór fram á Dalvík um helgina. Leikurinn endaði með 1-3 sigri Sandgerðinga líkt og Feykir sagði frá.

„Í stöðunni 1-1 fannst mér við ná góðum tökum á leiknum og okkur fannst við eiga að fá augljósa vítaspyrnu fljótlega eftir að við jöfnum. Svo skora þeir tvö mörk beint úr aukaspyrnum, vel gert hjá þeim,“ sagði Ingvi Rafn og bætti við: „Þannig að það er oft stutt á milli í þessu – frammistaðan góð en úrslitin vonbrigði.“

Tvö töp í fyrstu tveimur leikjunum, eigið þið meira skilið? „Að mínu mati ættum við að vera komnir með fleiri stig miðað við frammistöðuna. Það skiptir svo sem litlu hvað okkur finnst við eiga skilið, fótbolti er ekki alltaf sanngjarn. Það er því mikilvægt fyrir okkur að byggja ofan á það góða sem við höfum sýnt í fyrstu tveimur umferðunum í bland við að fara að sækja stig og sigra.

Hvað finnst þér vanta upp á til að ná í úrslit? „Mér finnst ekki mikið vanta upp á svo liðið fari að ná í úrslit. Við þurfum að vera klókari fyrir framan markið og nýta þær stöður sem við erum að komast í sóknarlega. Við vorum óheppnir að missa okkar helsta markaskorara á undirbúningstimabilinu í meiðsli (Kristinn Bjarna) í fyrsta leik. Á meðan hann er að jafna sig þurfa aðrir að stíga upp og finna markaskóna. Við verðum líka að vera raunsæir þar sem allur leikmannahópurinn er að koma saman rétt fyrir mót. Þannig að liðið þarf smá tíma til að slípast saman og hef ég fulla trú að það sé stutt í fyrsta sigurleikinn hjá okkur,“ sagði Ingvi Rafn að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir