ÓB-mótið tókst með ágætum þrátt fyrir kuldabola og bleytu

Glaðbeittar Víkingsstúlkur að loknum síðasta leik sínum á mótinu en allir þátttakendur fengu medalíu. MYNDIR: ÓAB
Glaðbeittar Víkingsstúlkur að loknum síðasta leik sínum á mótinu en allir þátttakendur fengu medalíu. MYNDIR: ÓAB

Nú um liðna helgi fór ÓB-mótið í knattspyrnu fram á Króknum. Þátttakendur voru 10 ára gamlar stúlkur sem komu víðs vegar að af landinu. Mótið heppnaðist með miklum ágætum, þátttakendur voru tæplega 700 og komu frá 23 félögum sem tefldu fram alls 110 liðum. Veðrið var reyndar ekki upp á marga fiska, örfá hitastig, norðanátt og rigning mestan partinn og sennilega hafa margir sárvorkennt þátttakendum að þurfa að standa í tuðrisparki við þessar aðstæður.

Raunar var fallegt veður þegar fólk streymdi að sl. föstudagskvöld og Skagafjörður skartaði sínu fegursta. Það voru þó flestir meðvitaðir um að veðurspáin var ekki góð og höfðu því undirbúið sig fyrir það. Fólk vaknaði við grámann á laugardagsmorgni en mótið hófst kl. 9. DJ Króksi spilaði fyrir dansi á kvöldvöku á laugardagskvöldi. Mótsstjóri var Sæþór Már Hinriksson og hann tjáði Feyki að ÓB-mót Tindastóls hafi tekist með eindæmum vel þrátt fyrir leiðindaveður. „Stelpurnar skemmtu sér vel og þá er markmiðinu náð.“

Setti veðrið strik í reikninginn, þurfti að breyta dagskrá eða voru vandræði á tjaldsvæði? „Veðrið setti merkilega lítið strik í reikninginn. Dagskráin riðlaðist eiginlega ekki neitt fyrir utan að á laugardaginn stóð til að borða hádegisverð úti samkvæmt dagskrá en sökum veðurs var hann snæddur inni í íþróttahúsi. Einnig var íþróttahúsið opið öllum alla helgina svo aðstandendur og keppendur gátu líka hlýjað sér á milli leikja.“

Urðu einhver forföll vegna veðurs? „Forföllin urðu ekki nein, fólk er vant því að mæta á fótboltamót á Íslandi yfir sumarið, þannig að flestir eru í góðri þjálfun við að láta alls konar veður yfir sig ganga.“

Hverjir voru sigurvegarar mótsins? „Sigurvegarar mótsins voru stelpurnar í 6. flokki, þjálfarar þeirra og aðstandendur.“

Var Guðni forseti bara óvænt á svæðinu? „Dætur hans voru að keppa á ÓB-mótinu svo hann var fótboltapabbi hér á Króknum um helgina,“ sagði Sæþór að endingu.

Ekki var annað að sjá þegar ljósmyndari Feykis skaust á völlinn upp úr kl. 13 á sunnudaginn en að tuðrusparkarar og fylgdarfólk þeirra skemmtu sér hið besta þrátt fyrir bleytuna og kuldann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir