Öflugur kappi í markið hjá Stólunum

Nikola og David eru nýir leikmenn Stólanna. SAMSETT MYND
Nikola og David eru nýir leikmenn Stólanna. SAMSETT MYND

Nú í vikunni var nýr markvörður kynntur til leiks hjá 4. deidar liði Tindastóls í knattspyrnu. Það er Nikola Stoisavljevic, 26 ára gamall Serbi, 192 sm á hæð, sem skrifaði undir tveggja ára samning en hann lék með liði KFA í 2. deildinni í fyrrasumar og var þá valinn markvörður tímabilsins í deildinni.

Hann mun mæta til leiks í byrjun apríl en fram kemur í fréttatilkynningu frá knattspyrnudeildinni að það sé mikil ánægja með að Nikola hafi valið að taka slaginn með liði Stólanna og vera partur af því plani sem lagt er af stað með. Haft er eftir Nikola að hann sé sæll með að hafa skrifað undir samning við lið Tindastóls og vilji hjálpa liðinu að komast aftur þangað sem það á að vera.

Margir vænir kappar hafa staðið milli stanganna hjá Stólunum síðustu árin en kannski má segja að nokkuð sé um liðið síðan verulega öflugur markvörður hefur verið með liðinu.

Gott gengi í Lengjubikarnum

Þá var fyrr í vikunni kynntur til leiks splunkunýr sóknarmaður, David Bercedo, og mun hann spila með liðinu í sumar. Hann er 25 ára gamall Madridingur sem kemur til Stólanna frá Quinnipiac University háskólanum í Bandaríkjunum. David kom til landsins sl. föstudag og tók þátt í sínum fyrsta leik um liðna helgi.

Í lok febrúar skrifuðu heimamennirnir efnilegu, Bragi Skúlason og Svend Emil Busk Friðriksson, undir tveggja ára samning við Stólana og verða því á fullri ferð með þeim hvítu og rústrauðu í sumar.

Lið Tindastóls tekur þátt í C-deild Lengjubikarsins og hefur þegar spilað þrjá leiki og unnið þá alla. Fyrst lögðu þeir Samherja 2-6 í Boganum, þá KM 3-1 á Sauðárkróksvelli og nú síðast höfðu Stólarnir betur gegn liði Skallagríms, 0-2, í Akraneshöllinni. Kría hefur einnig unnið alla sína leiki og liðin mætast einmitt á Króknum nú á laugardaginn og ræðst þá hvort liðið sigrar í riðlinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir