Öruggur sigur Tindastóls á Fjölni í Lengjubikarnum

Tindastólsmenn áttu ekki í vandræðum með lið Fjölnis í Lengjubikarnum í gærkvöldi en liðin áttust við í Dalshúsum. Í lið heimamanna vantaði þrjá leikmenn en Stólarnir prufukeyrðu nýjan kana, Drew Gibson, sem lék rúmar 20 mínútur og gerði 8 stig. Stólarnir voru með góða forystu í hálfleik og gekk heimamönnum illa að lagfæra stöðuna og lokatölur 79-102 fyrir Tindastól.

George Valentine byrjaði leikinn af kraft og gerði 6 fyrstu stigin og Stólarnir náðu sæmilegri forystu, 7-15, en heimamenn gerðu næstu 7 stig og allt í járnum. Tindastóll hélt forystunni út leikhlutann. Staðan 26-28. Fjölnir komst yfir í byrjun annars leikhluta, 32-30, en þá settu Þröstur Leó og Rikki niður þrista og og í stöðunni 34-36 skelltu Stólarnir í lás í vörninni og síðustu 5 mínútur fyrri hálfleiks gerðu heimamenn ekki eitt einasta stig en gestirnir riðu á vaðið og gerðu 15 stig á sama tíma. Staðan í hálfleik 34-51.

Fjölnismenn voru ekki snöggir úr startholunum í byrjun þriðja leikhluta. Valentine og Helgi Rafn juku forystuna í 21 stig en Fjölnir komst loks á blað þegar 2 mínútur voru liðnar en þá var leik nánast lokið. Það sem eftir lifði leiks voru Stólarnir alltaf 15-25 stigum yfir og fór svo að lokum að strákarnir skiluðu í hús 23ja stiga sigri, 79-102.

Valentine lék lausum hala í gærkvöldi, gerði 27 stig, en Þröstur Leó og Isaac Miles gerðu 13 stig hvor en Þröstur gerði sér lítið fyrir og tók flest fráköst Tindastólsmanna, eða 9 talsins. Nýi leikmaðurinn, Drew Gibson, gerði 8 stig í leiknum og átti 9 stoðsendingar og stal að auki 4 boltum.

Tindastóll hefur nú spilað fjóra leiki í Lengjubikarnum og unnið þá alla sem er frábær árangur. Næstkomandi sunnudag fá Stólarnir Breiðablik í heimsókn í Lengjubikarnum og þann 18. nóvember spila þeir síðasta leik sinn í riðlakeppninni þegar þeir mæta Stjörnunni í Garðabæ.

Stig Tindastóls: Valentine 27, Isaac Miles 13, Þröstur Leó 13, Helgi Rafn 11, Gibson 8, Svabbi 7, Arnar 6, Hreinsi 6 og Rikki 5 stig.

Fleiri fréttir