Órion á rafíþróttamóti Samfés

Síðastliðinn föstudag tóku unglingar í Húnaþingi vestra þátt í rafíþróttamóti Samfés þar sem keppt var í CS:GO og Fortnite. Samtals kepptu sjö krakkar frá Húnaþingi vestra, fjórir í CS:GO og þrír í Fortnite. Lið Órions var skipað fjórum heimamönnum, auk varamanns frá Danmörku sem hoppaði inn með skömmum fyrirvara eftir að einn liðsmaður forfallaðist. Liðið hittist í Órion þar sem komið hafði verið upp tímabundnu tölvuveri fyrir keppnina.

Því miður var keppni okkar manna stutt í þetta sinn, þar sem keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. Órion mætti Team Egilsstöðum í fyrsta leik, og var greinilegt að mótherjarnir mættu vel æfðir til keppni á meðan lið Órions var í raun að spila saman í fyrsta sinn.

Í stuttu máli sigraði Team Egilsstaðir þennan fyrsta leik, og þar með var þátttöku Órion í CS:GO lokið. En þess má þó geta að Team Egilsstaðir enduðu á að vinna heildarkeppnina, og má því segja að lið Órions hafi verið óheppið að mæta sterkasta liðinu í sínum fyrsta leik.

Þrír drengir kepptu í Fortnite, og þar kepptu allir í sóló (einn á móti einum). Keppnisfyrirkomulagið var þannig að kepptar voru fjórar lotur, og gátu keppendur safnað stigum með því að vinna umferðina, ná góðu sæti, eða með því að taka út aðra keppendur. Órion tókst ekki að vinna, en drengjunum tókst þó að ná nokkrum stigum í umferðunum fjórum.

Þrátt fyrir úrslitin virtust keppendur skemmta sér vel, og er ætlunin að styrkja stöðu rafíþrótta í Húnaþingi vestra enn betur á næstu vikum og mánuðum.

/Tanja M. Ennigarð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir