Ragnar Ágústsson valinn íþróttakarl Þórs

Ragnar með verðlaunagripinn. MYND: SKAPTI HALLGRÍMS / AKUREYRI.NET
Ragnar með verðlaunagripinn. MYND: SKAPTI HALLGRÍMS / AKUREYRI.NET

Góðvinir okkar í Þór Akureyri heiðruðu nú á dögunum það íþróttafólk sem þótti hafa skarað fram úr í starfi félagsins. Var Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs/KA, kjörin íþróttakona Þórs árið 2021 en síðan var það Skagfirðingurinn Ragnar Ágústsson, fyrirliði körfuboltaliðs Þórs, sem hlaut nafnbótina íþróttakarl Þórs. Sannarlega mikill heiður sem Ragnari er sýndur.

Í frétt á Akureyri.net segir að vegna samkomutakmarkana hafi árlegri samkomu félagsins, Við áramót, verið aflýst að þessu sinni en bæði Ragnar og Arna hafa þó fengið veglegan verðlaunagripinn í hendur.

Auk Ragnars voru fimm íþróttamenn tilnefndir til verðlaunanna en það voru Elmar Freyr Aðalheiðarson frá hnefaleikadeild félagsins, Arnór Þorri Þorsteinsson frá handknattleiksdeild, Fannar Daði Malmquist frá knattspyrnudeild, Andri Þór Bjarnarson frá rafíþróttadeild og Sigurður Þórisson frá píludeild.

Ragnar er sonur Ágústs Andréssonar frá Bergstöðum og Guðbjargar heitinnar Ragnarsdóttur en systkini hans, þau Viðar, Rakel Rós og Marín Lind, eru sömuleiðis öll mikið afreksfólk og þá ekki hvað síst á körfuboltavellinum. Ragnar kom upp í yngri flokka starfi Tindastóls og hefur leikið bæði með Stólunum og Þór í úrvalsdeildinni. Hann býr nú á Akureyri og leikur með liði Þórs þar sem hann er fyrirliði.

Feykir óskar Ragnari til hamingju með heiðurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir