Sigur í fyrsta leik Tindastóls í Subway deildinni

Þórir í leiknum á móti Álftanesi. Ljósmynd Bára Dröfn Kristinsdóttir.
Þórir í leiknum á móti Álftanesi. Ljósmynd Bára Dröfn Kristinsdóttir.
Íslandsmeistararnir hófu keppnistímabilið sitt í Subway deild karla í gærkvöldi þegar þeir fóru í Forsetahöllina og spiluðu á móti Álftanesi. Gaman var að sjá metnaðarfulla umgjörð hjá þeim fyrir leikinn og á leiknum sjálfum og greinilegt að það er mikill uppgangur í körfuboltanum á Álftanesi. Forsetahöllin var þétt setin og stemmingin var mjög góð, það vantaði að sjálfsögðu ekki stuðningsfólk Tindastóls á leikinn.
 
Tindastóll byrjaði leikinn betur og komst í 0 - 9 og Álftanes skoruðu sín fyrstu stig í Subway deildinni þegar 3 mínútur voru búnar af leiknum. Tindastóll var með yfirhöndina í fyrsta leikhluta og komust mest 10 stigum yfir. Álftnesingar héldu þó haus og voru ekki á því að gefa Íslandsmeisturunum neitt eftir og fyrsti leikhluti endaði 20 - 26 fyrir Tindastól. Annar leikhluti var hörku spennandi og endaði 18 - 20 fyrir Tindastól og staðan í hálfleik því 38 - 46.
Álftnesingar komu svo beittari út úr hálfleik og endaði þriðji leikhluti 16 - 11 fyrir þeim. Staðan því 54 - 57 fyrir Tindastól þegar seinasti leikhlutinn fór af stað. Síðasti leikhlutinn var spennandi allt til enda þar sem okkar menn fóru með sigur úr leikhlutanum 11 - 13 og loka niðurstaðan því 65 - 70 fyrir okkar drengjum í Tindastól. Frábær sigur í fyrsta leik!
 
Tölfræði leiksins.
Þórir átti flottan leik í sínum fyrsta leik fyrir Tindastól í Subway deildinni, hann endaði með 18 stig, 10 fráköst og 3 stoðsetningar.
Sigtryggur Arnar með 14 stig, 5 fráköst og 2 stoðsetningar.
Adomas Drungilas með 11 stig, 9 fráköst.
Davis Geks 9 stig, 3 stoðsetningar.
Pétur Rúnar 8 stig, 8 fráköst og 4 stoðsetningar.
Callum Lawson 7 stig, 6 fráköst og 2 stoðsetningar.
 
Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér 
Næsti leikur hjá strákunum er laugardaginn 14. október kl. 19:15 þegar Keflvíkingar heimsækja Síkið. 
Áfram Tindastóll!
 
/Sigríður Inga Viggósdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir