Sigur Stólastúlkna eftir sveiflu í Síkinu

Stólastúlkur í góðum félagsskap. MYND AF SÍÐU KKD. TINDASTÓLS
Stólastúlkur í góðum félagsskap. MYND AF SÍÐU KKD. TINDASTÓLS

Enn flæktist þriðji leikhlutinn fyrir Stólastúlkum þegar þær tóku á móti liði Snæfells í 1. deild kvenna nú á laugardaginn. Sem betur fer spilaði liðið nógu vel í hinum þremur leikhlutunum og náðu að stöðva Sianni Amari Martin á síðustu mínútum leiksins en hún gerði aðeins 51 stig í leiknum fyrir gestina og virtist ætla að stela stigunum fyrir Stykiishólmsliðið. Síðustu mínútur leiksins náðu heimastúlkur að snúa leiknum sér í hag og sigruðu 87-77 og það ekki síst fyrir geggjaðan leik hjá Maddie okkar Sutton sem gerði 33 stig og tók 32 fráköst! Hvaða rugl er það?

Lið Tindastóls náði yfirhöndinni strax í byrjun og komst í 8-0 forystu og voru yfir 16-2 eftir sjö mínútna leik. Þá fór Martin að vakna til lífsins en sem betur fer fór hún illa með skotin utan 3ja stiga línunnar í leiknum, hitti einu af níu þaðan en innan teigs fór nánast allt niður hjá henni á laugardaginn. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-15 og lið Tindastóls spilaði vel í öðrum leikhluta. Maddie gerði tvær körfur í röð og kom sínum stúlkum í 31-17 og í kjölfarið fylgdu tveir þristar frá hinni 16 ára gömlu Rebekku Hólm Halldórsdóttur sem var komin í byrjunarlið Tindastóls og sannarlega efnileg. Ksenja átti síðustu körfu fyrri hálfleiks og staðan 51-31 í hálfleik.

Fyrstu fimm mínútur þriðja leikhluta gekk lítið hjá gestunum að saxa á forskot Stólastúlkna og staðan 62-44. En síðari fimm mínúturnar fór allt í baklás hjá liði Tindastóls og Sianni Martin gerði 13 stig á þeim kafla og minnkaði muninn í 66-63 með vítaskotum rétt áður en leikhlutanum lauk. Maddie gerði fyrstu tvær körfur fjórða leikhluta en gestirnir komu til baka og Rebekka Kalla Jóns jafnaði leikinn 70-70. Sianni Martin gerði síðan næstu tvær körfurnar fyrir Snæfell og kom gestunum yfir 70-74. Þá tók Jan Bezica leikhlé og tókst að setja fyrir lekann og Maddie og Eva Rún gerðu næstu ellefu stig leiksins á þriggja mínútna kafla og breyttu stöðunni í 81-74. Inga Sólveig bætti við fjórum stigum og Ksanja tveimur á meðan Sianni klóraði í bakkann með þremur stigum fyrir Snæfell. Það dugði skammt og sætur sigur Stólastúlkna staðreynd gegn þessu fyrrum úrvalsdeildarstórveldi þeirra í Stykkishólmi.

Maddie átti enn einn stórleikinn fyrir lið Tindastóls og var eins og fyrr segir með 33 stig, 32 fráköst og sex stoðsendingar en eini ljóðurinn á leik hennar var að hún tapaði tíu boltum. En hver kvartar yfir 51 framlagspunkti? Eva Rún gerði 20 stig, tók fjögur fráköst og stal fimm boltum, Ksenja var með tólf stig og átti sex stoðsendingar, Rebekka gerði níu stig og Inga Sólveig var með átta stig og ellefu fráköst. Í liði Snæfells var Sianni Martin með 51 stig, fimm fráköst, þrjá stolna bolta en enga stoðsendingu. Rebekka Karlsdóttir var með tíu stig og Preslava Koleva níu stig og átta fráköst.

Smá hlé verður nú á keppni í 1. deild kvenna en lið Tindastóls spilar næsta leik sinn í Garðabæ gegn Stjörnunni 6. nóvember. Lið Tindastóls er í fimmta sæti með fjögur stig að loknum fjórum umferðum en fimm lið eru með fjögur stig. Ellefu lið taka þátt í 1. deild kvenna í vetur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir